Sunday, April 21, 2024
HomeErlentChris Weidman ætlar að áfrýja og vill endurat gegn Mousasi

Chris Weidman ætlar að áfrýja og vill endurat gegn Mousasi

Chris Weidman var ekki sáttur með niðurstöðu bardaga síns gegn Gegard Mousasi í gær. Weidman ætlar að áfrýju niðurstöðunni og vill fá annan bardaga gegn Mousasi.

Chris Weidman tapaði eftir tæknilegt rothögg í 2. lotu. Weidman fékk tvö hnéspörk í höfuðið en dómarinn Dan Miragliotta steig inn og gerði hlé á bardaganum. Miragliotta taldi að seinna hnéð hefði verið ólöglegt þar sem Weidman var með báðar hendurnar á gólfinu og ætlaði að gefa Weidman fimm mínútur til að jafna sig. Miragliotta yfirgaf búrið og kom aftur og sagði þá að þetta hefði verið löglegt.

„Ég hélt að ég væri að fara að vinna út af ólöglega hnésparkinu. Dómarinn fór úr búrinu og skoðaði endursýninguna og sagði að þetta hefði verið löglegt hné. En í New York ríki er bannað að skoða endursýninguna. Þetta er ömurleg staða,“ sagði Weidman á blaðamannafundinum eftir bardagann.

Læknirinn mat Weidman og taldi hann óhæfan til að halda áfram. Weidman var ósammála læknunum og vildi fá að halda áfram.

„Ef þetta var löglegt hné hefði ég viljað fá að halda áfram. Það hefði ekki átt að stoppa bardagann en það er dómarinn sem þarf að taka ákvörðunina og hans orð sem gildir. Það er engin endursýning leyfileg.“

Weidman vill fá endurat gegn Mousasi en það gæti reynst erfitt þar sem ekki er víst að næsti bardagi Mousasi verði í UFC. Bardaginn í gær var hans síðasti á samningnum hans við UFC og er honum frjálst að ræða við önnur bardagasamtök. Mousasi vill þó gjarnan vera áfram í UFC en hann vill fá borgað.

Weidman mun áfrýja niðurstöðunni og er ekkert sérstaklega spenntur fyrir því að berjast aftur í New York fylki þó hann sé New York maður í húð og hár.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular