spot_img
Friday, December 20, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentColby Covington gerir allt til að vekja athygli á sér

Colby Covington gerir allt til að vekja athygli á sér

Colby Covington gerir allt til að vekja athygli á sér. Hann mætir Demian Maia núna um helgina og hefur lofað því að svæfa Maia en skoðum hans hvernig persóna Covington hefur þróast á undanförnum árum.

Þeir Colby Covington og Demian Maia mætast á UFC Fight Night: Brunson vs. Machida bardagakvöldinu sem fer fram í Sao Paulo á laugardaginn. Bardaginn er næstsíðasti bardagi kvöldsins og mikilvægur fyrir veltivigtina.

Covington er 7-1 á ferli sínum í UFC en fyrst um sinn fór tiltölulega lítið fyrir honum. Hann óskaði eftir bardaga gegn Gunnari Nelson, Dong Hyun Kim og Demian Maia eftir sigur sinn á Max Griffin í ágúst í fyrra. Það gerði hann á rólegan og yfirvegaðan máta án þess að hrauna yfir bardagamennina og vildi einfaldlega fá að reyna á sig gegn bestu glímumönnum veltivigtarinnar.

Á þessu ári hefur hann hins vegar tekið annan pól í hæðina og reynt að selja bardaga eins og hann best getur. Hann hefur hraunað yfir aðra bardagamenn í veltivigtinni og er ekki eins venjulegur og í fyrra. Hann hefur verið afar hávær á samfélagsmiðlum og átt nokkur fyndin ummæli og skot.

Það besta sem hefur komið frá honum var þegar hann reyndi að búa til áhuga fyrir bardaga gegn Rafael dos Anjos. Þetta skjóskot af „tölvupósti“ Rafael dos Anjos var frumlegt og skemmtilegt grín en annað hefur eiginlega misst marks.

Hann hefur átt fleiri púðurskot og misheppnaðar tilraunir í skítkastinu sínu. Eftir að Tyron Woodley hótaði að leka viðkvæmum upplýsingum um UFC eftir að hann var gagnrýndur opinberlega af Dana White, kom Covington yfirmanni sínum til bjargar. Hann lofaði að opinbera rógburð um Woodley ef veltivigtarmeistarinn myndi gera slíkt hið sama um UFC eða Dana White. A-klassa sleikjuháttur í Covington þar á ferð á tímum þar sem flestir vilja sjá bardagamenn standa saman til að hjálpa þeim að fá betur borgað.

Woodley og Covington eru fyrrum æfingafélagar og hefur Covington margoft sagt að hann hafi leikið sér að Woodley á æfingum. Það er eitt að tala um mögulega framtíðar andstæðinga en dálítið annað að tala um fyrrum æfingafélaga og möguleg leyndarmál þeirra.

Covington skemmti sér svo á Twitter eftir tap Gunnars í sumar gegn Santiago Ponzinibbio í sumar. Covington og Ponzinibbio æfa saman hjá American Top Team.

Covington stakk upp á að John Kavanagh (yfirþjálfari Gunnars) myndi fá þjálfarann umdeilda Edmond Tarverdyan til liðs við sig en þeim síðarnefnda hefur verið kennt um slæma vörn gegn höggum hjá Rondu Rousey.

Fyrir bardagann gegn Demian Maia hefur hann verið við sama heygarðshornið og lofað því að hann muni klára Demian Maia léttilega. Covington hefur kallað Sao Paulo algjört greni og nýtur þess að hafa áhorfendur á móti sér. Hann hefur meira að segja sagt að hann færi leikandi létt með Maia ef þeir myndu mætast í hefðbundinni jiu-jitsu glímu í galla.

Allt er þetta gert til að vekja athygli á sér og sínum næsta bardaga. Hann er að spila leikinn og vekur athygli á sér með kjaftinum, ekki ólíkt því sem Chael Sonnen gerði á sínum tíma. Sonnen var, líkt og Covington, frekar óspennandi glímumaður þar til hann fór að tala í fyrirsögnum. Covington er að gera það nákvæmlega sama en er bara ekki eins fyndinn og skemmtilegur eins og Sonnen var oft á tíðum.

En þetta er að virka ágætlega hjá honum. Honum virðist ekki vera neitt heilagt þegar kemur að skítkastinu í garð andstæðinga en virðist samt ekki vera að fá neina stuðningsmenn á sitt band með skítkasti sínu eins og Sonnen tókst. Aðdáendur vilja horfa á hann tapa núna og það er gott fyrir Covinton – svo lengi sem hann heldur áfram að vinna. Margt sem hann segir er skrítið en hann hefur hlotið talsvert meiri athygli fyrir vikið.

Hér má sjá hann kokhraustan fyrir bardagann gegn Maia um helgina.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular