spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentÁ Conor einhvern séns gegn Floyd Mayweather?

Á Conor einhvern séns gegn Floyd Mayweather?

Þeir Conor McGregor og Floyd Mayweather mætast í boxbardaga nú á laugardaginn. Floyd Mayweather er að margra mati einn besti boxari sögunnar en á Conor McGregor einhvern séns?

Ansi margir sérfræðingar hafa látið eftir sér að Conor McGregor eigi ekki séns gegn Floyd. Conor McGregor er auðvitað ekki á sama máli en hann telur að aldur Floyd, stærðarmunurinn og sú staðreynd að hann er örvhentur eigi eftir að valda Floyd vandræðum. Enginn getur staðið af sér þessi þungu beinu högg með vinstri að mati Conor og er hann handviss um að hann eigi eftir að rota Floyd. Hér förum við aðeins yfir þá hluti sem munu eiga sinn þátt í að móta bardagann.

Stærðin

Conor McGregor er 175 cm á hæð og með 188 cm langan faðm. Aftur á móti er Floyd 173 cm á hæð og með 183 cm faðmlengd. Þetta er enginn gígantískur munur en hér að neðan má sjá stærð síðustu 13 andstæðinga Floyd.

Hæð (cm) Faðmlengd (cm)
Floyd Mayweather 173 183
Conor McGregor 175 188
Andre Berto 169 174
Manny Pacquiao 166 170
Marcos Maidana 170 175
Canelo Alvarez 175 179
Robert Guerrero 173 178
Miguel Cotto 170 170
Victor Ortiz 175 178
Shane Mosley 175 178
Juan Manuel Marquez 170 170
Ricky Hatton 170 165
Oscar de la Hoya 179 185
Zab Judah 171 183

Conor er með lengri faðm en allir þessir andstæðingar en hæsti andstæðingurinn var Oscar de la Hoya. Conor mun samt pottþétt vera mun þyngri en Floyd í hringnum. Bardaginn fer fram í 154 punda (69,8 kg) léttmillivigt og mun Conor eflaust vera um það bil 75 kg í bardaganum eða þyngri. Bardagi Floyd gegn de la Hoya var hnífjafn en Floyd var ekki í miklum erfiðleikum með þyngri mann eins og Canelo Alvarez.

Floyd ryðgaður?

Floyd Mayweather hefur ekkert barist síðan í september 2015. Hann gæti því verið ryðgaður þegar hann kemur í hringinn þann 26. ágúst. Floyd tók sér tveggja ára hlé frá 2007 til 2009 og skólaði hann Juan Manuel Marquez þegar hann snéri aftur. Þá leit Floyd ekkert út fyrir að vera ryðgaður og er erfitt að ímynda sér að hann verði það núna.

Conor er örvhentur

Conor og hans lið hafa margoft haldið því fram að Floyd eigi í erfiðleikum með örvhenta andstæðinga. Conor er sjálfur örvhentur og með baneitraða vinstri. Þrátt fyrir allt tal um að Floyd eigi í erfiðleikum með örvhenta andstæðinga er hann engu að síður 9-0 gegn þeim. Floyd var vissulega í vandræðum með örvhenta andstæðing á síðustu öld en greinilega unnið í þeim veikleika. Einn besti örvhenti boxari allra tíma, Manny Pacquiao, tókst lítið að ógna Floyd er þeir mættust árið 2015. Hinn örvhenti Zab Judah olli Floyd vandræðum árið 2006 í fyrstu lotum bardagans og kýldi hann niður (þó það hafi farið framhjá dómaranum) en Floyd tók síðar yfir bardagann þegar á leið. Árið 2004 tókst DaMarcus Corley að vanka Floyd með vinstri en Floyd vann samt lotuna og allar aðrar lotur bardagans.

Erfiðustu bardagar Floyd voru gegn rétthentu mönnunum Marcos Maidana, Shane Mosley, Miguel Cotto, Oscar de la Hoya og Jose Luis Castillo.

Allt er fertugum fært

Floyd er 40 ára gamall og hefur keppt 49 bardaga sem atvinnumaður frá 1996 og 94 áhugamannabardaga. Floyd er sennilega ekki eins hraður og hann var fyrir tveimur árum og það mun hjálpa Conor. Í bardagaheiminum er oft sagt að menn verði allt í einu gamlir (e. getting old overnight). Við höfum séð slík dæmi í MMA heiminum og er eitt besta dæmið Anderson Silva. Hann var hreinlega ósigrandi þrátt fyrir að vera orðinn 37 ára gamall en eftir tap gegn Chris Weidman var hann allt í einu ekki ósigrandi og leit út fyrir að vera gamall.

Vanmat?

Floyd er bara að taka þennan bardaga þar sem þetta er arðbærasti bardaginn í boði og á pappírum nokkuð auðveldur. Hann gæti verið að vanmeta Conor, jafnvel ekki að æfa jafn mikið og hann gerði áður og það er alltaf hættulegt í bardagaheiminum.

conor mcgregor jose aldo
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Höggþyngd Conor

Þó Conor sé ekki hefðbundinn boxari er ekki hægt að neita því að hann er ansi höggþungur. 18 af 21 sigrum hans í MMA hafa komið eftir rothögg og er vinstri höndin hans eitt besta vopnið í MMA í dag. Þegar hann nær að hitta hrynja menn niður og spurning hvort það sama verði upp á teningnum í þessum boxbardaga.

Einn besti varnarboxari sögunnar

Floyd er 49-0 og hefur fengið afskaplega fá þung högg í sig. Andstæðingar hans ná varla að snerta hann en að meðaltali lenda andstæðingar Floyd aðeins 18% högga sinna á meðan Floyd er með um 44% nákvæmni. Að meðaltali er Floyd að lenda tvöfalt fleiri höggum heldur en andstæðingurinn og er hann einfaldlega besti varnarboxari sögunnar. Það verður alltaf erfitt fyrir Conor að lenda höggum í Floyd.

Floyd er klár

Floyd Mayweather er hrikalega klár bardagamaður og afskaplega fær í að lesa andstæðinginn. Þeim sem hefur vegnað vel gegn Floyd hefur gengið vel fyrstu fjórar loturnar en eftir það er Floyd yfirleitt búinn að lesa andstæðinginn. Þá tekur hann yfir bardagann og þó hann sé orðinn fertugur er hann ennþá jafn klár bardagamaður – það hverfur ekki. Hann er kannski ekki eins hraður en hann er ennþá klár og með alla þessa reynslu.

Óhefðbundinn stíll

Conor McGregor er ekki eins og allir þessir boxarar sem hafa mætt Floyd Mayweather í gegnum árin. Hann er með öðruvísi stíl og það gæti komið Floyd í opna skjöldu í fyrstu lotum bardagans.

12 lotur

Bardaginn er 12 lotu bardagi en Floyd hefur 19 sinnum farið allar 12 loturnar. Það er því gífurleg reynsla hjá Floyd í svona 12 lotu bardögum. Aftur á móti hafa flestir bardagar Conor í MMA klárast snemma en aðeins einu sinni hefur Conor farið í fimm lotur í MMA. Conor er pottþétt að leggja mikla áherslu á þolið í sínum undirbúningi til að vera tilbúinn til að fara 12 lotur gegn Floyd. Hinn fertugi Floyd veit aftur á móti hvenær á að hvíla og hvenær á að keyra hraðann upp í gegnum 12 lotur. Reynslan úr 12 lotu bardögum gæti reynst dýrmæt.

Hakan

Í þau fáu skipti sem Floyd hefur fengið þung högg í sig hefur hann alltaf staðið þau af sér. Í 49 atvinnubardögum hefur hann aldrei verið kýldur almennilega niður (Zab Judah höggið fór framhjá dómaranum). Shane Mosley náði tveimur góðum höggum í 2. lotu bardaga þeirra sem vankaði Floyd en Floyd stóð það af sér, „clinchaði“ og lifði af. Strax í næstu lotu var hann aftur kominn með yfirhöndina og vann allar loturnar eftir 2. lotuna. Í þau fáu skipti sem hann hefur lent í vandræðum hefur hakan staðið það af sér og Floyd nógu vakandi til að „clincha“ þar sem hann getur jafnað sig. Þó Conor hitti er ekki þar með sagt að Floyd muni hrynja niður.

Aldrei efast um Conor?

Miðað við allt sem við vitum um báða bardagamenn og bardagaíþróttir yfir höfuð á Floyd Mayweather að vinna þennan bardaga. Það getur þó allt gerst í bardagaíþróttum og Conor trúir því í alvörunni að hann muni rota Floyd Mayweather. Trúin flytur fjöll og Conor McGregor hefur áður staðið við stóru orðin. Hver hefði trúað því að hann myndi rota Jose Aldo á 13 sekúndum? Hver hefði trúað því að hann hefði orðið sá fyrsti til að verða meistari í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma í UFC? Þessi írski bardagamaður hefur gert allt sem hann hefur sagst ætla að gera. Af hverju ætti hann ekki að geta rotað Floyd Mayweather?

conor mcgregor
Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.
spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular