spot_img
Saturday, November 16, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentConor McGregor: Ekkert sem gerir mig spenntan lengur í MMA

Conor McGregor: Ekkert sem gerir mig spenntan lengur í MMA

Mynd: Kjartan Páll Sæmundsson.

Conor McGregor tilkynnti í morgun að hann væri hættur í MMA. Þetta er í þriðja sinn sem hann sendir frá sér slíka tilkynningu en hann segist ekki vera spenntur fyrir íþróttinni lengur.

Conor McGregor barðist síðast í janúar á þessu ári þegar hann sigraði Donald Cerrone. Conor ætlaði að taka þrjá bardaga á þessu ári en kórónaveiran hefur sett strik í reikninginn.

Conor segir núna að bardagaheimurinn heilli hann ekki lengur og þess vegna sé hann hættur. Conor og hans lið hafa átt í viðræðum við UFC í von um að bóka bardaga í júlí. Samningar eru hins vegar langt frá því að nást en peningar eru ekki stærsta hindrunin heldur að finna rétta andstæðinginn.

„Ég er ekki lengur spenntur yfir þessu. Öll þessi bið og það er ekkert að gerast. Ég fer í gegnum nokkra möguleika á andstæðingum en það er ekkert þarna. Það er ekkert sem gerir mig spenntan,“ sagði Conor við ESPN.

„Þeir [UFC] hefðu átt að láta boltann rúlla. Af hverju eru þeir að láta bardaga Khabib gegn Justin Gaethje gerast í september? Það mun eitthvað gerast í september og bardaginn verður ekki. Ég var með áætlun og þeir vilja alltaf koma í veg fyrir það eða draga það á langinn. Hvað sem ég segi eru þeir á móti því til að sýna einhver völd. Þeir hefðu átt að láta mig og Justin berjast um bráðabirgðarbeltið og láta boltann rúlla.“

Conor virðist vera ósáttur með mögulega andstæðinga sem UFC er með í huga fyrir hann. Jorge Masvidal, Kamaru Usman, Nate Diaz og Anderson Silva hafa verið nefndir í fjölmiðlum sem mögulegir andstæðingar.

Þetta er í þriðja sinn sem Conor segist vera hættur í MMA. Fyrsta tilkynningin kom í apríl 2016 á meðan hann var á Íslandi en þá var hann ósáttur við fjölmiðlaskyldur sínar fyrir UFC 200. Conor tilkynnti aftur í mars 2019 að hann væri hættur en snéri aftur í búrið í janúar á þessu ári. Conor segist hafa skrifað starfsloka yfirlýsinguna fyrir tveimur vikum síðan.

„Ég er orðinn þreyttur á þessum leik. Ég horfði á síðasta bardagakvöld [Bursn vs. Woodley] og þetta gerir mig ekki spenntan. Ég er bara ekki spenntur yfir þessu. Ég veit ekki hvort það er skortur á áhorfendum, ég veit ekki hvað það er en það er bara ekkert fjör í þessu fyrir mig.“

Conor ætlaði sér að berjast þrisvar á þessu ári og átti næsti bardagi að vera í júlí. Þær áætlanir virðast vera flognar út um gluggann enda kórónaveiran sett strik í reikninginn fyrir allar íþróttir á heimsvísu.

„Ég var með mín markmið, mín plön og þetta tímabil. Ég var búinn að teikna þetta allt upp. Auðvitað er heimurinn í ótrúlegu ástandi þessa stundina. En það er ekkert að gerast. Þeir vilja henda mér upp og niður um þyngdarflokka og bjóða mér heimskulega bardaga. Mér er alveg sama, ég er kominn yfir þetta. Það er ekkert þarna fyrir mig. Ég er að reyna að vera spenntur, ég er að gera mitt besta.“

Það er spurning hvort UFC finni eitthvað sem heillar Conor McGregor enda erfitt að trúa því að Conor sé raunverulega hættur. Jon Jones og Jorge Masvidal eiga báðir í opinberum útistöðum við UFC þessa dagana og eru því margar af stærstu stjörnum UFC í kuldanum.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular