Friday, April 19, 2024
HomeErlentMánudagshugleiðingar eftir UFC 250

Mánudagshugleiðingar eftir UFC 250

Embed from Getty Images

UFC 250 fór fram um helgina í Las Vegas. Bardagakvöldið var mjög skemmtilegt en hér eru Mánudagshugleiðingar eftir bardagakvöldið.

Amanda Nunes er langbesta bardagakona heims! Það var svo sem vitað fyrir helgina en hún sýndi það enn og aftur. Hún er svo mörgum skrefum framar en samkeppnin að þetta er næstum því illska að senda andstæðinga þarna inn gegn henni.

Felicia Spencer er fínasta bardagakona en átti bara ekki séns gegn Nunes. Hún var ekki með yfirhöndina í eina sekúndu. Nunes var mun betri standandi, varðist öllum sjö fellum Spencer, náði sex fellum sjálf, var betri í gólfinu og var allan tímann betri.

Einu sinni var sagt að einn af veikleikum Nunes væri þolið en það virðist ekki vera raunin lengur. Hún hefur núna nokkrum sinnum farið auðveldlega gegnum fimm lotur. Sagan væri kannski önnur ef andstæðingurinn væri að pressa meira og stjórna bardaganum en eins og staðan er núna getur Nunes farið í gegnum fimm lotur án vandræða.

Nunes er þar með sú fyrsta í sögu UFC til að vera handhafi tveggja titla og hafa varið báða titla. Engum öðrum hefur tekist það og er það glæsilegt afrek hjá Nunes.

Þrátt fyrir að vera meistari í tveimur flokkum er bara ekkert framundan sem er spennandi fyrir Nunes. Í hvorki bantam- né fjaðurvigt er einhver sem telst vera ógn við Nunes. Þetta er svipað og þegar Demetrious Johnson eða Anderson Silva voru búin að hreinsa sinn flokk á sínum tíma – það er ekkert spennandi eftir.

Nunes ætlar sem betur fer ekki að berjast út árið. Hún og unnusta hennar, Nina Ansaroff, eiga von á barni eftir þrjá mánuði og mun öll einbeiting Nunes fara í það. Á meðan gæti áskorandi myndast í bantamvigtinni. Aspen Ladd, Irene Aldana, Juliana Pena og Ketlan Vieira gætu barist sín á milli um titilbardaga.

Embed from Getty Images

Bantamvigtin blómstrar

Um helgina voru þrír flottir bardagar í bantamvigt karla. Cody Garbrandt náði góðri endurkomu eftir þrjú slæm töp í röð þegar hann steinrotaði Raphael Assuncao í lok 2. lotu. Garbrandt var nokkuð yfirvegaður í bardaganum var tæknilega flottur. Hann sýndi líka þennan magnaða hraða sinn og rosalega kraft en hann er klárlega ennþá áskorandi í flokknum.

Sean O’Malley sýndi einnig að léttir strákar geta rotað. Rothögg hans gegn Eddie Wineland var það besta sem sést hefur á árinu og verður rothögg hans og Garbrandt eflaust á listum yfir bestu rothögg ársins þegar árið verður gert upp. O’Malley er heldur betur að bæta sig og stefnir hraðbyri að verða sú stjarna sem flestir telja að hann verði. Þessi tveggja ára fjarvera hans vegna USADA mála hefur greinilega gert honum mjög gott! Spurning hvort Chase Hooper þyrfti ekki að fara sömu leið?

Ég var ekki alveg sannfærður um að O’Malley væri framtíðin en ég er kominn á lestina eftir þennan sigur. Wineland er grjótharður og erfitt að klára hann en O’Malley var geggjaður.

Aljamain Sterling nældi sér í sinn besta sigur á ferlinum á laugardaginn þegar hann kláraði Cory Sandhagen. Fyrirfram var búist við mjög jöfnum og spennandi bardaga. Ein mistök Sandhagen komu honum í slæma stöðu og greip Sterling tækifærið ótrúlega vel. Virkilega vel gert hjá Sterling og er hann nú kominn í lykilstöðu í flokknum.

Þrátt fyrir að vera með hóp af frábærum spennandi og hungruðum bardagamönnum í bantamvigtinni fær 33 ára Jose Aldo næsta titilbardaga gegn Petr Yan. Aldo er 0-1 í bantamvigtinni en UFC ætlar greinilega að hunsa niðurstöðu dómaranna þriggja (eina niðurstaðan sem skiptir máli) og ákveða að hann hafi unnið Marlon Moraes. Þegar bantamvigtin er að blómstra svona er hálf leiðinlegt að sjá gamla stjörnu fá titilbardagann.

Það má alveg færa rök fyrir því að Sterling eigi meira skilið titilbardaga en Petr Yan. Hvað sem gerist á milli Yan og Aldo þá mun sigurvegarinn þurfa að mæta Aljamain Sterling. Það ætti að verða gríðarlega áhugaverður bardagi. Meistarans bíður svo röð af áskorendum eins og Marlon Moraes, Cody Garbrandt, Pedro Munhoz, Sean O’Malley Cory Sandhagen og auðvitað Dominick Cruz. Bantamvigtin orðinn einn besti þyngdarflokkur UFC og svo má auðvitað ekki gleyma að tveggja ára keppnisbanni T.J. Dillashaw lýkur í janúar.

Næsta bardagakvöld er ekki merkilegt en það fer einnig fram í Apex æfingaaðstöðu UFC án áhorfenda. Þá mætast þær Jessice Eye og Cynthia Calvillo í aðalbardaga kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular