Conor McGregor kann að hafa tapað um helgina en hann þénaði samt meira en nokkur annar MMA bardagamaður í sögunni.
Það má deila um hvort Ronda Rousey eða Conor McGregor séu stærstu stjörnur UFC. Hvað tekjur varðar virðist McGregor hins vegar vegar kóngurinn.
Heildartekjur UFC bardagamanna eru ekki alveg á hreinu. Uppgefnar tekjur hafa hins vegar alltaf legið fyrir er bardagarnir fara fram í Las Vegas en nú hefur Conor McGregor slegið met í þeim. Fyrir bardaga sinn gegn Nate Diaz þénaði McGregor eina milljón dollara í uppgefnum tekjum en enginn hefur þénað það mikið til þessa.
Inn í þessari tölu er ekki hluti af „Pay per view“ sölunni eða tekjur frá styrktaraðilum. Því er jafnan haldið fram að tekjur af „Pay per view“ sölunni gefi mestu tekjurnar og því spurning hversu margar milljónir McGregor fékk á bankabók sína um helgina. Talið er að um milljón heimili hafi keypt UFC 196 um helgina.
Sama kvöld fengu Nate Diaz og Holly Holm hálfa milljón dollara en allir aðrir talsvert minna. Conor McGregor heldur því áfram að skrifa nafn sitt í sögubækurnar hvort sem hann vinnur eða tapar.