spot_img
Thursday, November 21, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentConor McGregor handviss um að hann myndi vinna Floyd ef þeir mætast...

Conor McGregor handviss um að hann myndi vinna Floyd ef þeir mætast aftur

Conor McGregor er handviss um að hann myndi vinna Floyd Mayweather ef þeir myndu mætast aftur. Skiptir þá litlu máli hvort um box eða MMA bardaga væri að ræða að hans mati.

Conor McGregor talaði um framtíðina og bardagann gegn Floyd Mayweather við Caroline Pearce í SEC Armadillo höllinni í Glasgow í gær. Viðburðurinn kallaðist An Evening with Conor McGregor þar sem Conor ræddi við Pearce í um klukkutíma fyrir framan fullan sal áhorfenda.

Talið barst að sjálfsögðu að Floyd bardaganum en Floyd sigraði Conor McGregor með tæknilegu rothöggi í 10. lotu í ágúst.

„Það versta við þetta er að þessi litli andskoti er hættur núna. Ég veit að ef ég myndi mæta honum aftur, undir box reglum, myndi ég ná sigrinum. Ég veit það. Ég veit það eftir að hafa fundið fyrir honum í hringnum í fyrsta bardaganum,“ sagði Conor á viðburðinum í gær.

„Hann þurfti að breyta allri sinni nálgun. Hann barðist allt öðruvísi en hann hefur áður gert. Hann vissi ekkert hvað ég var að gera í fyrstu lotunum. Ef ég myndi mæta honum aftur, miðað við það sem ég lærði af fyrri bardaganum, myndi ég ná honum. Aftur á móti er hann 50-0 og hann er að halda áfram með sitt líf. Ég ætla ekki að fara að skora á hann. Það gleður mig að sjá bardagamann vegna vel.“

Conor ætlar ekki að eltast við endurat gegn Floyd en telur samt að eyðsla Floyd gæti leitt til þess að þeir mætist aftur. Þá myndi hann vilja sjá Floyd í búrinu undir MMA reglum.

„Sjáum hvernig hann eyðir þessum upphæðum. Ég gæti fengið símtal aftur og við gætum gert þetta aftur. Upphaflega sagði hann að MMA bardagi yrði næstur, hann talaði um það fyrir bardagann. Hvað ætlar hann að gera? Vill hann annan bardaga? Í mínum huga ættum við að fá einn af þessum boxgæjum í minn heim núna.“

Floyd keypti sér nýverið glæsilega villu á 26 milljónir dollara. „Vel gert hjá honum, aldeilis kaup. Með skattareikningnum fyrir hans síðasta bardaga og reikningnum þar á undan og fjárfestingunum hans góðu, gæti ég fengið símtal á næstunni.“

Conor býst þó við að hans næsti bardagi verði í búrinu. Að hans sögn eru nokkrir möguleikar í boði. Þeir Kevin Lee og Tony Ferguson mætast um bráðabirgðarbeltið í léttvigtinni á UFC 216 þann 7. október.

„Það er bráðabirgðarbelti í húfi, það er valmöguleiki. Nate Diaz þríleikurinn er auðvitað þarna. Kannski gæti Paulie Malignaggi komið yfir MMA og barist eða Floyd. Kannski gæti ég lokkað Floyd í MMA.“

Conor er ánægður að þeir Lee og Ferguson séu að mætast en segir að annar hvor þeirra gæti ennþá þurft að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla.

„Það gleður mig að þeir séu að berjast. Þetta er það sem ég vildi því þeir eru allir ræflar þegar uppi er staðið. Ég vil bara sjá þá keppa. Of margir draga sig úr bardaganum á síðustu stundu og það gæti enn gerst hjá þeim. Ég vona innilega að þessi bardagi fari fram. Nate þarf bara að bíða þangað til við tökum ákvörðun. Þetta verður að vera eitthvað sem gerir mig spenntan, sem heillar mig. Sjáum hvað þessi tvö flón gera þann 7. október. Sjáum hvernig orkan verður.“

Khabib Nurmagomedov hefur einnig verið nefndur til sögunnar og þá mögulega í Rússlandi. „Khabib er annar möguleiki. Khabib í Rússlandi væri frábær bardagi. Það væri klikkað. Við sjáum hvað setur. Ég þarf þó að sjá hann ná vigt. Það er ekki séns að ég fari þangað og hann nær svo ekki vigt. Ég þarf tryggingu.“

Khabib átti að mæta Tony Ferguson um bráðabirgðartitilinn á UFC 209 í mars. Khabib var þó í vandræðum með niðurskurðinn og mætti ekki í vigtunina. Hann var sendur upp á sjúkrahús kvöldið fyrir vigtunina og enn er óvíst hver næsti bardagi hans verður.

Að lokum talaði Conor um Georges St. Pierre. Eftir fjögurra árá fjarveru snýr GSP aftur í búrið þann 4. nóvember þegar hann mætir Michael Bisping í millivigt. „Bardagi gegn GSP væri annar peningabardagi þó hann hafi ekki barist í langan tíma. Ég held þó að hann verði rassskelltur gegn Bisping. Ef ég á að segja eins og er held ég að þetta séu mistök hjá honum að berjast í nýjum þyngdarflokki eftir svo langt hlé.“

Heimild: MMA Fighting

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular