0

Conor McGregor: Ég þarf að verja UFC beltið

Conor McGregor talaði í gær um titilbaráttuna í léttvigtinni. Þar viðurkenndi hann að hann verði að verja beltið sem hann vann í fyrra.

Conor McGregor fór ítarlega yfir stöðuna í léttvigtinni með Caroline Pearce í SEC Armadillo höllinni í Glasgow í gær. Viðburðurinn kallaðist An Evening with Conor McGregor þar sem Conor ræddi við Pearce í um klukkutíma fyrir framan fullan sal áhorfenda um ýmis málefni.

Sjá einnig: Conor McGregor handviss um að hann myndi vinna Floyd ef þeir mætast aftur

Conor McGregor varð léttvigtarmeistari UFC í nóvember í fyrra þegar hann sigraði Eddie Alvarez. Síðan þá hefur hann ekkert barist í MMA en tók boxbardaga gegn Floyd Mayweather í ágúst. Núna er stóra spurningin hvert næsta skref sé hjá honum.

John Kavanagh sagði á dögunum að hann myndi helst vilja sjá Conor mæta Nate Diaz í þriðja sinn. Það hefur verið nokkuð gagnrýnt enda á Conor ennþá eftir að verja titilinn sem hann vann í nóvember í fyrra.

Þeir Tony Ferguson og Kevin Lee mætast um bráðabirgðarbeltið þann 7. október á UFC 216. Óvíst er hvort sigurvegarinn fái bardaga gegn Conor en Ferguson hefur sagt að Conor ætti að vera sviptur titlinum ef hann ætlar ekki að verja beltið.

Conor veit af gagnrýninni og viðurkennir að hann þurfi að verja beltið. „Ég þarf að verja UFC beltið og það hefur einhverja þýðingu fyrir mig. Ég mun verja titilinn,“ sagði Conor í gærkvöldi en MMA Fighting tók saman.

„Nathan [Nate Diaz] er þarna. Hann er með allar þessar kröfur. Ef verðmiðinn hans er of hár mun ég örugglega verja titilinn gegn þeim sem vinnur bráðabirgðarbeltið. Eða gegn einhverjum öðrum til að réttmæta beltið aftur.“

Nate Diaz hefur áður sagt að hann vilji fá að minnsta kosti 20 milljónir fyrir þriðja bardagann gegn Conor McGregor en Diaz hefur ekkert barist frá því hann tapaði fyrir Conor á UFC 202 í ágúst í fyrra.

Stórir svo kallaðir peningabardagar hafa alltaf heillað Conor meira en einhver belti. Hann fékk sinn stærsta mögulega peningabardaga í ágúst er hann tapaði fyrir Floyd Mayweather en núna virðist hann hafa meiri áhuga á titlinum.

„Ég er þegar búinn með langstærsta peningabardagann. Ég er alltaf spurður út í það hvenær ég ætli að verja beltið til að réttmæta íþróttina og styrkleikalistana. Núna er kannski góður tími til að gera það og þagga niður í þeirri hlið.“

„Ég er mjög spenntur fyrir bardaganum næstu helgi [á UFC 216] til að sjá hvernig málin þróast í léttvigtinni og leiðrétta svo stöðuna. Ég á mína sögu með Nate. Það er 1-1 og það verður að gerast og mun gerast einn daginn. Að réttmæta titilinn, það er dálítið spennandi fyrir mig. Ég ætla að sjá hvernig titilbardaginn spilast og tek svo ákvörðun.“

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply