Ýmsar sögur hafa verið uppi undanfarna mánuði um framtíð Conor McGregor í bardagaheiminum. Á tímabili virtist hann vera á leið í bardaga gegn Michael Chandler og beið Chandler eftir tækifæri í þeim bardaga mánuðum saman. Þá hefur McGregor sjálfur sett fram ýmsa möguleika undanfarið, þar á meðal hnefaleikabardaga við Logan Paul og bardaga í BKFC samtökunum sem hann er hlutaðeigandi að.
Þrátt fyrir orðróma um ýmsa bardaga hefur McGregor enn og aftur komið nafni sínu í fyrirsagnir blaðanna fyrir athæfi utan við bardagabúrið. Í myndbandi sem hefur gengið um netheima undanfarna daga má sjá McGregor fyrir utan Cafe Al Teatro í Las Vegas og er aðdáandi að taka upp á farsíma þar sem hann nálgast McGregor og reynir að fá mynd af þeim saman. Heyrist þá kallað „let´s go Khabib“ frá og tekur McGregor á rás og gengur beint að þeim sem hafði kallað til hans og virðist hrækja framan í hann. Má svo heyra McGregor segja „ég hrægti framan í þig hvað ætlarðu að gera í því, ekkert“ þegar hann gengur í burtu.
Eins og flestir vita er Khabib Nurmagomedov erkióvinur McGregor en þeir börðust í október árið 2018 þar sem Khabib stöðvaði McGregor með uppgjafartaki í fjórðu lotu. Aðdragandi bardaga þeirra var ansi skrautlegur og hafði McGregor móðgað Khabib svo í aðdragandanum að Khabib ætlaði ekki að hætt eftir að McGregor hafði gefist upp gegn honum og réðst hann á einn af þjálfurum McGregor, Dillon Danis utan við hringinn strax í kjölfar þess að bardaganum við McGregor lauk.
Það fer að virðst ólíklegra með hverjum deginum að aðdáendur McGregor fái að sjá hann að berjast að nýju en hann minnir á sig reglulega með slæmri hegðun utan við búrið.