Það verður sannkallað ofurbardagakvöld þann 5. mars í Las Vegas þegar UFC 197 fer fram. Conor McGregor mun fara upp í léttvigt og skora á meistarann Rafael dos Anjos og Holly Holm mætir Miesha Tate.
Árið er rétt að byrja en strax erum við að sjá risa bardagakvöld. UFC 197 átti upphaflega að fara fram í Brasilíu en þeim áætlunum hefur verið breytt og mun bardagakvöldið fara fram í MGM Grand Arena í Las Vegas.
Í aðalbardaga kvöldsins fer fjaðurvigtarmeistarinn Conor McGregor upp í léttvigt og skorar á meistarann þar, Rafael dos Anjos. McGregor getur brotið blað í sögu UFC með því að vera sá fyrsti til að vera meistari í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma.
UFC hefur ekki tilkynnt bardagana formlega en nokkrar heimildir herma að þetta verði raunin.
BREAKING: Multiple sources confirm UFC will soon announce UFC 197 for March 5 in Vegas with Dos Anjos/McGregor and Holm/Tate.
— Jeremy Botter (@jeremybotter) January 8, 2016
Rafael dos Anjos varði beltið sitt í desember er hann kláraði Donald Cerrone á aðeins 66 sekúndum með tæknilegu rothöggi. Þar áður hafði hann tekið beltið af Anthony Pettis og hafði mikla yfirburði gegn þáverandi meistara.
Nýji bantamvigtarmeistarinn, Holly Holm, mun mæta Miesha Tate í næstsíðasta bardaga kvöldsins (e. co-main event). Holm rotaði Rondu Rousey á UFC 193 eins og frægt er orðið.
Upphaflega var talið að Holm myndi þurfa að mæta Rondu Rousey aftur en Holm langaði ekki að bíða svo lengi eftir Rousey. Rousey mun ekki geta barist fyrr en í fyrsta lagi á UFC 200 í júlí.
Tate átti að margra mati að fá titilbardagann gegn Rousey í stað Holly Holm á sínum tíma. Tate er á fjögurra bardaga sigurgöngu og fær hér tækifæri til að taka beltið sem hún telur sig eiga skilið að eiga.
Þá er spurning hvort að okkar maður, Gunnar Nelson, verði á bardagakvöldinu en Gunnar hefur þrívegis barist á sama bardagakvöldi og Conor McGregor í UFC. Þeim félögum finnst gott að undirbúa sig saman fyrir bardaga og gætu þeir viljað halda því áfram.