Conor McGregor getur varla hnerrað þessa dagana án þess að bardagaaðdáendur og fjölmiðlar hrökkvi við. Í gærkvöldi birti hann fína mynd af sér á Skólavörðustíg með áhugaverðum skilaboðum.
„Ég hef greitt mína reikninga. Fengið mína peninga. Og slátrað bransanum,“ segir Conor McGregor við myndina á Instagram síðu sinni. Það áhugaverðasta er þó kassamerkið sem hann lætur fylgja með myndinni. Þar segir hann „Þið eigið næsta leik“ og á hann þar við UFC.
Þeir McGregor og UFC standa nú í deilum eftir að UFC tilkynnti að Írinn muni ekki berjast á UFC 200 eins og til stóð. McGregor óskaði eftir færri fjölmiðlatengdum skyldum í kringum UFC 200 og svigrúmi til að æfa meira í friði. UFC vill ekki verða að ósk hans og ætlast til þess að McGregor sinni sínum kynningarskyldum.
McGregor er að heyja einvígi við UFC og standa þeir mótspænis hvor öðrum og bíða eftir næsta leik hvors annars. Sögulega séð hefur það ekki gengið vel að spila svona leiki við UFC enda standa bardagasamtökin alltaf á sínu. UFC hefur hingað til tekið á sig tap frekar en að gefa sig. UFC hefur þó aldrei staðið í svona deilum við aðra eins peningavél og McGregor er.