spot_img
Saturday, November 2, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentHvað hefur Jon Jones gert síðan hann barðist síðast?

Hvað hefur Jon Jones gert síðan hann barðist síðast?

jon jonesJon Jones barðist síðast á UFC 182 þann 3. janúar 2015. Síðan þá hefur ansi margt gerst í lífi Jones og ætlum við að rifja það aðeins upp í tilefni þess að hann berst á morgun.

Tveir af bestu bardagamönnum heims, pund fyrir pund, berjast á morgun en enginn er að tala um það. Þeir Jon Jones og Demetrious Johnson berjast (þó ekki gegn hvor öðrum) annað kvöld á UFC 197 en bardagakvöldið hefur fallið í skuggann á fréttum af Conor McGregor.

Jon Jones sigraði erkifjanda sinn, Daniel Cormier, eftir dómaraákvörðun í janúar 2015. Hann var auðvitað hrókur alls fagnaðar á blaðamannafundinum eftir bardagann og talaði um að nú væri markmiðið hans bara að verða besti bardagamaður allra tíma. Jones fékk mikið lof fyrir frammistöðuna sína og fátt sem benti til fallsins sem við áttum eftir að sjá.

Tveimur dögum eftir bardagann gegn Cormier kom í ljós að Jones hefði fallið á lyfjaprófi. Lyfjaprófið var framkvæmt mánuði fyrir bardagann og fundust leyfar af kókaíni í lyfjaprófinu. Allt varð vitlaust í MMA heiminum enda besti bardagamaður heims uppvís af neyslu eiturlyfja.

Í ljós kom að aðilinn sem framkvæmdi lyfjaprófið hefði gert mistök. Hann átti einungis að prófa fyrir frammistöðubætandi efni en ekki fyrir dóp eins og marijúana og kókaín (e. street drugs). Jones skráði sig í sólarhrings meðferð og gerði lítið úr atvikinu. Þetta var bara eitt skipti og svo endilega vildi til að hann hefði verið lyfjaprófaður eftir eina tryllta helgi. UFC stóð þétt upp við bakið á sínum manni og var Dana White, forseti UFC, stoltur af Jones fyrir að taka á vandamáli sínum. Síðar kom í ljós að þetta var bara toppurinn af ísjakanum.

Jones var ekki sviptur titlinum og átti að mæta Anthony Johnson á UFC 187 þann 23. maí. Mánuði fyrir bardagann ók hann yfir á rauðu ljósi og varð valdur að þriggja bíla árekstri. Jones hafði m.a. ekið á bíl óléttrar konu sem handleggsbrotnaði fyrir vikið. Jones flúði vettvang, snéri svo aftur á slysstað og sótti reiðufé úr bíl sínum og skyldi óléttu konuna eftir aftur.

Jones gerði í rauninni það eina rétta í stöðunni og var í felum í 24 tíma. Hann var eftirlýstur af lögreglunni og gaf sig fram þegar búið var að renna af honum. Síðar viðurkenndi Jones að hafa ekið heim eftir langt næturstand, enn undir áhrifum áfengis, og ekki tekið eftir rauða ljósinu. Í bíl hans fannst hasspípa með grasi í.

Aftur varð allt vitlaust í MMA heiminum. Enn á ný var þessi besti bardagamaður heims að koma sér í vandræði. Í þetta sinn tók UFC ekki jafn létt á málunum. Hann var sviptur léttþungavigtarbeltinu og mættust þeir Daniel Cormier og Anthony Johnson um beltið hans.

Jones fór í einangrun um tíma og heyrðist ekkert í honum þar til hann veitti Ariel Helwani langt viðtal.

Í viðtalinu við Helwani og í öðru viðtali við Rolling Stone tímaritið greindi hann nánar frá ótrúlegu lífi sínu sem UFC meistari. Hann djammaði mikið, reykti gras oft á dag og hagaði sér hreint ekki sem íþróttamaður í heimsklassa. Eftir því sem titilvarnirnar urðu fleiri fór hann að djamma meira og meira og nær bardögunum enda komst hann alltaf upp með það. Hann æfði afskaplega lítið fyrir Alexander Gustafsson bardagann og hefði átt að tapa þeim bardaga að sínu mati. Hann var enn bestur þrátt fyrir að djamma nokkrum vikum fyrir bardaga og æfa lítið.

Hann mætti skakkur á æfingar og æfði ekkert þegar hann var ekki með bardaga framundan. Eftir hvern bardaga djammaði hann í margar vikur, mætti svo „skinny fat“ í æfingabúðir og hélt áfram að vera besti bardagamaður í heimi. Það er í raun ótrúlegt hversu góður hann er miðað við hve lítið hann æfði og sögurnar sem heyrðust.

Eftir bílslysið ákvað hann að gera eitthvað í sínum málum og fór í meðferð. Hann fékk einnig 18 mánaða skilorðsbundinn dóm og var dæmdur til 72 klukkustunda samfélagsþjónustu þar sem hann talaði við börn og ungmenni.

Í dag segist hann vera hættur öllum grasreykingum, æfir mun meira en áður, er með næringafræðing, er farinn að lyfta meira en nokkru sinni fyrr og er loksins kominn með einkabílstjóra.

Jon Jones hefur nefnilega tvívegis komið sér í vandræði eftir að hann fékk skilorðsbundna dóminn. Fyrst var hann sektaður fyrir akstur án ökuleyfis. Ekki stórvægilegt brot en talsvert alvarlegra fyrir menn á skilorði.

Í mars var hann aftur til vandræða í umferðinni og var sakaður um spyrnukeppni og fjögur önnur minniháttar brot. Jones þurfti að gista í tvær nætur í gæsluvarðaldi vegna málanna og er nú á ansi hálum ís vegna skilorðsins. „Ef ég sé þig hér aftur mun það ekki enda vel,“ sagði dómarinn við Jon Jones er réttarhöldunum lauk í máli hans.

En eins og áður segir er hann kominn með einkabílstjóri enda akstur í raun rót allra vandræða hans. Nú á laugardaginn mætir hann Ovince Saint Preux í aðalbardaganum á UFC 197. Það verður kærkomið að sjá hann loksins aftur enda langt síðan við höfum fengið að sjá hann berjast.

Til gamans má skoða hvað hefur gerst síðan Jones barðist síðast. Conor McGregor sigraði Dennis Siver í janúar, vann svo bráðabirgðarbeltið í júlí eftir bardaga gegn Chad Mendes, rotaði Jose Aldo á 12 sekúndum, tapaði gegn Nate Diaz í veltivigtarbardaga, hætti, hætti við að hætta og er nú ekki lengur á UFC 200.

UFC 197 fer fram á laugardaginn og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Aðalhluti bardagakvöldsins hefst kl 2 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

jon jones osp

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular