Conor McGregor hefur gefið það út að hann ætli að tilkynna eitthvað stórt eftir UFC 205. Conor McGregor mætir Eddie Alvarez um léttvigtartitilinn á UFC 205 í New York.
Ekkert er vitað um efni tilkynningarinnar og verður það hulin ráðgáta fram að UFC 205. Conor ætlar ekki að gefa neitt upp fyrr en hann hefur sigrað Eddie Alvarez.
„Kaupið Pay Per View-ið og fylgist með. Ekki blikka, þetta verður stórt,“ sagði Conor McGregor við MMA Junkie.
Conor McGregor er fjaðurvigtarmeistari UFC og freistar þess að ná léttvigtarbeltinu líka. Engum hefur tekist að halda beltum í tveimur þyngdarflokkum á sama tíma í UFC en Dana White, forseti UFC, hefur gefið það út að hann verði að gefa annað hvort beltið upp á bátinn takist honum að sigra Alvarez.
„Það á margt eftir að spilast út eftir bardagann. Þetta er nokkuð sem tengist mér ekkert og er mjög óvænt. Ég ætla að leyfa Conor að tilkynna þetta þegar hann er tilbúinn,“ sagði Dana White við Outside The Cage hlaðvarpið.
Þetta eykur enn á forvitnina og hreinlega ómögulegt að vita hvað þetta sé. Hugsanlega mun Conor tilkynna þetta strax eftir bardagann í viðtali við Joe Rogan fari hann með sigur af hólmi gegn Alvarez.
UFC 205 fer fram í Madison Square Garden í New York og verður eitt stærsta bardagakvöld sögunnar. Spennan um þessa tilkynningu frá Conor eykur enn á tilhlökkunina fyrir kvöldið.