spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentCyborg: Allir vita að ég er fjaðurvigtarmeistarinn

Cyborg: Allir vita að ég er fjaðurvigtarmeistarinn

Eins og kom fram í morgun hefur UFC stofnað fjaðurvigt kvenna og fer fyrsti titilbardaginn fram á næsta ári. Cris ‘Cyborg’ Justino fær ekki að berjast í fyrsta fjaðurvigtarbardaganum en er ánægð með að þyngdarflokkurinn hennar sé loksins kominn í UFC.

Fyrsti titilbardaginn í fjaðurvigt kvenna (145 pund) fer fram þann 11. febrúar á UFC 208 en þá mætast þær Holly Holm og Germaine de Randamie.

„Það gleður mig að UFC hafi stofnað minn þyngdarflokk. Í 11 ár hef ég barist fyrir því að konur fái sömu réttindi og karlar og geti barist í nokkrum mismunandi þyngdarflokkum,“ segir Cyborg sem fagnar þessu skrefi UFC en telur að hún ætti að fá titilbardagann.

„Allir vita að ég er fjaðurvigtarmeistarinn. Ég er ósigruð í flokknum í 10 ár. Þeir eru bara að setja upp þennan bardaga til að selja fyrir nýrri MMA aðdáendur. Holly Holm er t.d. að koma til baka eftir tvö töp í röð og er að berjast um titil. Alvöru aðdáendurnir vita hver er alvöru meistarinn.“

Cyborg vonast auðvitað eftir því að fá sigurvegarann en segir það langt í frá öruggt. „Það er ekkert regluverk um hver fær næsta titilbardaga í MMA. Í síðasta titilbardaganum í fjaðurvigt karla var annar búinn að vinna níu í röð [Max Holloway] en hinn búinn að tapa þremur af síðustu fjórum bardögum sínum [Anthony Pettis]. Bardagamenn eins og ég þurfa að bíða eftir titilbardaga. Ég hef barist í þessum flokki í tíu ár og þangað til í gær voru engar konur í flokknum. Þetta er sá raunveruleiki sem við búum við.“

UFC var lengi vel hikandi við að setja á stokk fjaðurvigt kvenna í UFC enda eru ekki eins margar konur sem berjast í þessum þyngdarflokki eins og í bantamvigtinni eða strávigtinni. Cyborg hefur þurft að berjast báða bardaga sína í UFC í 140 punda hentivigt og var það gríðarlega erfiður niðurskurður. Það verður því áhugavert að sjá hvernig fjaðurvigt kvenna mun spilast á næsta ári.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular