Saturday, February 24, 2024
HomeErlentDana White: Adesanya mætir Jan Blachowicz næst um léttþungavigtartitilinn

Dana White: Adesanya mætir Jan Blachowicz næst um léttþungavigtartitilinn

Dana White, forseti UFC, greindi frá því í gær að Israel Adesany fari upp í léttþungavigt. Þar mun hann mæta ríkjandi meistara og getur orðið tvöfaldur meistari.

UFC meistarinn í millivigt, Israel Adesanya, berst sinn næsta bardaga í léttþungavigt. Adesanya átti fund með Dana White í gær en millivigtarmeistarinn er staddur í Las Vegas til að aðstoða æfingafélaga sinn.

Næsta titilvörn Adesanya í millivigtinni átti að vera gegn Jared Cannonier ef honum tækist að sigra Robert Whittaker. Whittaker sigraði hins vegar Cannonier um síðustu helgi á UFC 254.

Dana sagði að Whittaker vildi ekki mæta Adesanya og því fær Adesanya að fara upp í léttþungavigt til að mæta meistaranum þar, Jan Blachowicz.

„Eftir síðustu helgi var ég viss um að ég þyrfti að sannfæra Adesanya um að berjast við Whittaker. Síðan segir Whittaker að hann vilji ekki berjast við Adesanya. Það er algjör sturlun,“ sagði Dana á blaðamannafundinum í nótt.

„Það er óþarfi að þræta við Israel núna. Mér fannst Whittaker eiga skilið að mæta Adesanya en Whittaker vill ekki titilbardagann þannig að við leyfum Adesanya þetta [að fara upp í léttþungavigt].“

Jon Jones lét beltið af hendi í léttþungavigt fyrr á þessu ári til að fara upp í þungavigt. Jan Blachowicz var krýndur meistari með sigri á Dominick Reyes í september og verður hans fyrsta titilvörn því gegn Adesanya.

Adesanya hefur áður lýst því yfir að hann vilji hreinsa út millivigtina áður en hann fer upp í léttþungavigt. Þar sem það er enginn augljós áskorandi nr. 1 ætlar Adesanya að reyna að ná öðru belti en hann mun ekki láta millivigtarbeltið af hendi. Adesanya getur því verið handhafi tveggja belta á sama tíma ef honum tekst að sigra Blachowicz.

Ekki er vitað hvenær sá bardagi fer fram en Blachowicz leggur til að það verði í mars.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular