0

Dana White: Conor berst vonandi næsta sumar

Dana White, forseti UFC, vonast eftir að sjá Conor McGregor aftur í búrinu næsta sumar. Þessi ríkjandi léttvigtarmeistari barðist ekkert í UFC á þessu ári og ef marka má Dana White verður endurkoma hans ekki fyrr en næsta sumar.

Conor McGregor varð léttvigtarmeistari eftir sigur á Eddie Alvarez á UFC 205 í nóvember 2016. Síðan þá hefur hann ekkert barist í MMA en tók boxbardaga gegn Floyd Mayweather í ágúst. Conor McGregor hefur sjálfur ekkert sagt hvenær hann muni snúa aftur og telja margir að hann muni jafnvel aldrei berjast aftur.

„Ég hef ekki talað við Conor um næsta bardaga, við tölum aðra hluti. En eins og ég hef sagt áður, hann fékk háar upphæðir fyrir Floyd bardagann og ég er viss um að hann og fjölskyldan hafi notið jólanna. Eftir hátíðirnar fær hann vonandi þrána til að snúa aftur og vonandi getur hann komið aftur næsta sumar,“ sagði Dana White við ESPN í dag.

Tony Ferguson er bráðabirgðarmeistari UFC í léttvigtinni eftir sigur á Kevin Lee í október. Conor ætti að mæta honum næst og sameina beltin en Ferguson gæti þurft að berjast við sigurvegara helgarinnar fyrst.

„Við erum með Khabib og Edson Barboza að berjast um helgina, tveir af þeim bestu í léttvigtinni. Þetta verður áhugavert. Sá sem vinnur um helgina gæti endað á að berjast við Tony Ferguson um möguleikann á að berjast við Conor McGregor. Sjáum til.“

Ef Conor mun ekki snúa aftur fyrr en næsta sumar munu að minnsta kosti 18 mánuðir líða án þess að hann verji beltið sitt. Dana White virðist þó ekkert á því að svipta hann titlinum.

Dana White er nokkuð viss um að Conor McGregor muni snúa aftur. Conor fékk um það bil 100 milljónir dollara fyrir bardagann gegn Floyd Mayweather og eru efasemdir um að hann hafi áhuga á að berjast aftur enda bankabókin nógu þykk.

„Peningar munu alltaf hafa áhrif en við höfum aldrei átt í erfiðleikum með að ná samningum við Conor McGregor. Ég sé það ekki vera vandamál. Spurningin er hvort hann vilji koma aftur eða ekki. Það skiptir ekki máli hversu mikinn pening þú átt með suma einstaklinga. Þú getur bara farið í ákveðið mörg frí, þú getur bara keypt ákveðið magn af dóti. Svo fer þig vonandi að langa að fara aftur í vinnuna.“

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is

-Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ)
-BS í sálfræði
-Lýsi UFC á Stöð 2 Sport
-MMA fíkill
Pétur Marinó Jónsson

Comments

comments

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í 6 ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Stöð 2 Sport -MMA fíkill

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.