Ef það var einhver vafi um hvort að tístið hans Conor McGregor hafi verið grín ættu nýjustu fréttir að benda til að svo sé ekki. Dana White var rétt í þessu að tilkynna að Conor McGregor muni ekki keppa á UFC 200.
BREAKING NEWS: UFC pulls @TheNotoriousMMA from #UFC200. @danawhite on @SportsCenter now.
— UFC (@ufc) April 19, 2016
Það er þá orðið staðfest að Conor McGregor muni ekki berjast við Nate Diaz á UFC 200. UFC er að vinna að því að fá nýjan aðalbardaga á UFC 200 í stað McGregor og Diaz.
Að sögn Dana White, forseta UFC, er ástæðan sú að Conor McGregor neitaði að mæta á blaðamannafund í Las Vegas síðar í vikunni til að kynna UFC 200.
„Conor vildi ekki koma til Las Vegas. Hann er að æfa á Íslandi,“ sagði Dana White við SportsCenter á ESPN rétt í þessu.
„Við eigum ennþá í góðu sambandi við Conor. Ég ber mikla virðingu fyrir honum sem bardagamanni og líkar vel við hann sem manneskju. En þú getur ekki ákveðið að mæta ekki á svona hluti. Þú verður að gera það.“
Til upprifjunar má geta þess að Nick Diaz, eldri bróðir Nate, fékk ekki að berjast við Georges St. Pierre á sínum tíma þar sem hann mætti ekki á fjölmiðlatengda viðburði.