Dana White langar að sjá Daniel Cormier halda áfram í MMA. Cormier er nú á krossgötum á ferlinum og spurning hvort hann leggi hanskana á hilluna.
Daniel Cormier tapaði þungavigtartitli sínum til Stipe Miocic á UFC 241 um helgina. Cormier vildi ekki ákveða framtíð sína strax og ætlar að hugsa málið vel og vandlega. Cormier varð fertugur fyrr á árinu en hann hafði áður sagst ætla að hætta þegar hann yrði fertugur.
Dana White, forseti UFC, vill ekki sjá Daniel Cormier hætta í MMA. „Hann er einn sá besti í heiminum að mínu mati. Hann leit fjandi vel út á laugardaginn þar til Stipe fór í skrokkinn. Ég held að hann [Cormier] sé ennþá einn af þeim bestu í heiminum og held að hann ætti ekki að hætta en það veltur á honum og fjölskyldu hans,“ sagði Dana White um Daniel Cormier.
Dana White hefur áður sagt að hann reyni aldrei að sannfæra bardagamenn um að halda áfram að berjast þegar þeir íhuga að hætta. Dana telur þó að Cormier sé það góður að hann þurfi ekki að hætta og langar að sjá þriðja bardagann á milli Cormier og Miocic.
„Ég er til í allt fyrir Cormier og það sem hann vill gera og auðvitað er ég til í að gera allt sem Stipe vill gera. Stipe hlýtur að vilja klára þríleikinn.“