0

Dana White: Cyborg má fara annað

Dana White, forseti UFC, ætlar að leysa Cyborg undan samningi og leyfa henni að fara annað. Samband UFC og Cyborg hefur ekki verið gott og mun nú ljúka.

Cris ‘Cyborg’ Justino barðist sinn síðasta bardaga á samningi sínum við UFC um síðustu helgi. Þá sigraði hún Felicia Spencer eftir dómaraákvörðun og óskaði eftir að fá annan bardaga við meistarann Amanda Nunes. Dana White hefur hins vegar ítrekað haldið því fram að Cyborg vilji ekki berjast aftur við Nunes en Cyborg hefur að sama skapi sagt það vera tóma þvælu.

Í nýlegu viðtali sagði Dana White að Cyborg væri velkomið að fara annað. „Allt sem hún hefur verið að segja undanfarið er til að forðast að berjast við Amanda Nunes. Skilaboð móttekin. Ég skil það. Ég mun leysa hana undan samningi og við munum ekki jafna önnur tilboð,“ sagði Dana.

Þegar UFC-samningi lýkur hefst 90 daga tímabil þar sem bardagamenn- og konur mega ræða við önnur bardagsamtök en UFC á alltaf réttinn á að jafna þau tilboð á þessu 90 daga tímabili. Dana sagði að UFC myndi ekki jafna önnur tilboð og hún væri laus allra mála núna hjá UFC.

„Hún er laus allra mála og getur farið til Bellator eða í önnur bardagasamtök og berjast þessa auðveldu bardaga sem hún vill. Búið mál. Við erum ekki lengur í Cyborg bransanum.“

Cris Cyborg birti í vikunni myndband þar sem hún sýndi Dana White líkja henni við Wanderlei Silva í kjól. Cyborg vildi fá opinbera afsökunarbeiðni frá Dana en Dana varði þau ummæli í viðtalinu og sagði ummælin vera tekin úr samhengi.

„Ég var spurður út í Cyborg og ég sagði ‘sáu þið hana á The MMA Awards? Haldiði að hún sé ekki á sterum?’. Hún gekk upp stigann á verðlaunahátíðinni og ég sagði að hún hefði litið út eins og Wanderlei Silva í kjól. Það sem ég meinti var að hún væri með sömu líkamsbyggingu og Wanderlei Silva. Mánuði síðar flýr Wanderlei frá lyfjaprófi og fékk þriggja ára bann.“

Það er því ljóst að Cyborg mun ekki berjast næst í UFC. Hún mun væntanlega fá mörg tilboð til sín enda ein besta bardagakona heims. Viðtalið við Dana White má sjá hér að neðan.

Pétur Marinó Jónsson

Pétur Marinó Jónsson

Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.