Dana White, forseti UFC, hefur ekki mikla trú á að Ronda Rousey haldi áfram í MMA. White átti samtal við hana á dögunum og telur að bardagaferlinum sé lokið.
Þetta sagði White í UFC Unfiltered hlaðvarpinu. Ronda Rousey tapaði illa fyrir Amöndu Nunes á UFC 207 í fyrra. Lítið hefur heyrst frá Rondu síðan og höfum við hugsanlega séð hana í síðasta sinn í búrinu.
Dana White vildi þó ekki útiloka endurkomu Rondu en þetta var hans tilfinning eftir spjall við hana. „Eftir samtal mitt við hana, ef ég á að segja akkúrat núna hér og nú, myndi ég ekki segja að hún berjist aftur. Ég held að hún sé örugglega búin og hún mun nú hefja líf sitt utan bardagaheimsins,“ sagði White.
Ronda talaði alltaf um að hætta sem ósigraður meistari og var það því mikið áfall fyrir Rondu er hún tapaði fyrir Holly Holm á sínum tíma.
„Hún er svo mikil keppniskona, bardagaskorið og ferillinn hennar skiptu hana öllu. Og þegar hún tapaði hugsaði hún með sér, ‘hvað í fjandanum er ég að gera? Þetta er það eina sem skiptir mig máli, er þetta allt og sumt? Ég vil fá að upplifa aðra hluti og prófa eitthvað annað.’ Og ég held að hún sé byrjuð á því og á hún nóg af peningum. Hana mun aldrei skorta neitt enda eyðir hún ekki peningum eins og Floyd Mayweather.“
Ronda hefur alltaf talað um að lifa lífinu eftir bardagaferilinn utan sviðsljóssins og búa utan stórborganna. Ef hún er raunverulega hætt hefur hún tækifæri á því en enn sem komið er hefur Ronda sjálf ekki staðfest hvort hún sé hætt eða ekki.