Saturday, February 24, 2024
HomeErlentDana White: Khabib er næstur fyrir Conor

Dana White: Khabib er næstur fyrir Conor

Dana White var að vonum hrifinn af frammistöðu Conor McGregor gegn Donald Cerrone í nótt. Dana vill sjá Conor fara aftur í Khabib.

Conor McGregor sigraði Donald Cerrone með tæknilegu rothöggi eftir aðeins 40 sekúndur. Þetta var fyrsti bardagi hans síðan hann tapaði fyrir Khabib Nurmagomedov í október 2018.

Conor McGregor var sjálfur ekki með ákveðinn andstæðing í huga fyrir sinn næsta bardaga. Dana White, forseti UFC, vill sjá Conor mæta Khabib næst.

„Það eru alltaf möguleikar á skemmtilegum bardögum fyrir Conor og alltaf einhver sem vill berjast við Conor. Conor hefur sagt að hann hafi verið að eiga við persónuleg vandamál fyrir Khabib bardagann síðast sem var honum sjálfum að kenna. Hann var að eiga við meiðsli og var með margt á sinni könnu og hann hefur verið heltekinn af því að fá endurat gegn Khabib af því hann veit að hann var ekki í 100% standi síðast,“ sagði Dana White á blaðamannafundinum eftir UFC 246 í nótt.

„Khabib er 28-0 og það er erfitt að ná því, sama hverjum þú mætir. Eftir kvöldið og hvernig Khabib vann í fyrri bardaganum og hve frægur Khabib er núna erum við að tala um Hagler-Hearns, Ali-Foreman, Ali-Frazier bardaga. Þetta er risastór bardagi á heimsvísu. Það er bardaginn til að setja saman og það sem hentar núna. Það er bardaginn fyrir 155 punda titilinn.“

Khabib mætir Tony Ferguson í apríl um léttvigtartitilinn. Jorge Masvidal var viðstaddur bardagann í gær og eru margir sem vilja sjá hann gegn Conor næst.

„Hvorki Conor né Masvidal eru með titil núna. Þó Conor vilji BMF titilinn, þá er hann ekki með heimsmeistaratitil. Khabib er andstæðingurinn. Það er stórt fyrir arfleifð Khabib líka. Ef hann vinnur Conor og svo Tony Ferguson og svo aftur Conor þá hefur hann unnið þá allra bestu.“

Fyrri bardagi Khabib og Conor var stærsti bardagi í sögu UFC en 2,4 milljón Pay Per View voru keypt þegar UFC 229 fór fram. Skítkastið fyrir bardagann var ljótt og voru slagsmálin eftir bardagann skammarleg. Þrátt fyrir það vill Dana setja bardagann saman aftur.

„Khabib gegn Conor yrði stærsti bardaginn í sögu UFC og sögu MMA. Það gæti verið jafn stórt og Conor gegn Floyd Mayweather,“ en boxbardaginn skrautlegi var næststærsta Pay Per View allra tíma.

Khabib hefur sjálfur sagt að hann hafi lítin áhuga á að mæta Conor aftur. Khabib segir að Conor þurfi að vinna 10 bardaga í röð svo hann íhugi að mæta Conor aftur.

„Khabib hefur aldrei hafnað bardaga, aldrei. Khabib neitar ekki bardögum, það er ekki hans stíll. Hann hatar Conor McGregor og Conor McGregor hatar hann.“

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular