Jon Jones komst enn einu sinni í fréttirnar fyrr í vikunni vegna vandræða hans utan búrsins. Dana White er hættur að vera hissa á vandræðum hans utan búrsins.
Jon Jones var á dögunum ákærður fyrir líkamsárás. Jones er sakaður um að hafa slegið gengilbeinu í klofið, sett hana í heningartak, dregið hana í kjöltu sína og kysst á hálsinn samkvæmt stefnunni frá lögreglunni í Albuquerque. Jones neitar sök í málinu.
Dana White, forseti UFC, segir vandræði Jon Jones ekki angra sig lengur. „Þetta slær mig ekki út af laginu lengur. Í hvert sinn sem við setjum upp bardaga með Jon velti ég því fyrir mér hvort þetta verði sá síðasti,“ sagði White við fjölmiðla í vikunni.
„Það hefur ekkert með peninga að gera, frekar það sem gengur á utan búrsins. Horfandi á lífstíl hans síðustu 7-8 ár og það sem hann hefur gert í búrinu, er í raun ótrúlegt hve góður Jon Jones er. En um leið og hann stígur út úr búrinu veit maður aldrei hvað gerist. Hann er í vandræðum núna.“