Daniel Cormier telur að hann muni mæta Jon Jones aftur. Cormier tapaði fyrir Jon Jones á UFC 214 en báðir bardagar þeirra hafa endað með sigri Jon Jones.
Jon Jones kláraði Daniel Cormier með tæknilegu rothöggi í 3. lotu er þeir mættust í annað sinn á UFC 214. Jones tók þar með beltið af Cormier og er aftur orðinn ríkjandi meistari í léttþungavigt.
Cormier var í The MMA Hour í dag þar sem hann viðurkenndi að hafa ekki enn horft á bardagann. Hann er ekki tilbúinn til þess ennþá og er enn dapur yfir úrslitunum. Cormier finnst eins og hann hafi brugðist þjálfurum sínum og öllum þeim sem aðstoðuðu hann fyrir bardagann.
„Ég var auðvitað vonsvikinn með bardagann. En mér leið illa fyrir hönd fólksins næst mér þar sem þau höfðu lagt svo mikið undir fyrir bardagann og höfðu gert svo margt til að hjálpa mér að undirbúa mig,“ sagði Daniel Cormier í The MMA Hour fyrr í dag.
Þrátt fyrir að vera með tvö töp á ferilskránni gegn ríkjandi meistara er hinn 38 ára Cormier ekkert á því að hætta.
„Hvers vegna ætti ég að hætta að berjast? Ég elska að keppa meira en nokkuð annað. Það keyrir mig áfram. Mér líður ömurlega þegar ég er ekki að keppa. Ég elska að keppa. Ég elska að vera í þessu umhverfi. Ég mun berjast aftur og tel að ég muni mæta Jon Jones aftur. Auðvitað hef ég löngunina í að berjast og ég held að við munum mætast aftur áður en ferillinn klárast.“
„Ég veit ekki hvernig leiðin liggur að öðrum bardaga gegn Jones en ég býst við að hann muni verða meistari. Ég held að enginn annar í þyngdarflokkinum geti keppt við mig. Ég tel að við munum mætast aftur eftir að ég vinn nægilega marga bardaga.“
Cormier ætlar ekki að keppa aftur fyrr en á næsta ári en gæti tekið bardaga í þungavigt næst. Cormier var 13-0 í þungavigtinni áður en hann færði sig niður í léttþungavigt. Hann hreinlega ætlar að koma sér aftur í annan bardaga gegn Jon Jones, sama hvað það kostar.
„Þegar uppi er staðið verð ég að sætta mig við það að ég kláraði ekki verkið. Ég þarf að gera eitthvað sérstakt til að fá þetta tækifæri aftur og það mun ég gera. Ég mun finna leið til að láta læsa mig aftur í búrinu með þessum manni. Ég bara verð.“