Darren Till mætir Jorge Masvidal á laugardaginn í aðalbardaga kvöldsins á UFC bardagakvöldinu í London. Till viðurkennir að tapið gegn Woodley sé ennþá sárt og það muni taka hann tíma að komast yfir tapið.
Darren Till mætti Tyron Woodley í titilbardaga í veltivigtinni í september. Woodley kláraði Till í 2. lotu og var ekki mikil ógn af Till í bardaganum en þetta var fyrsta tap Till sem atvinnumaður.
„Ég held ég muni aldrei komast yfir það. Ég skammast mín ekki fyrir að viðurkenna það en þetta stingur á hverjum degi sem ég hugsa um þetta. Ég hef horft á bardagann mörgum sinnum. Þó að ég myndi vinna Woodley aftur einn daginn mun fyrsti bardaginn alltaf stinga,“ segir Till.
Hann ætlar sér að komast aftur á sigurbraut með sigri á Jorge Masvidal um helgina. Till ber mikla virðingu fyrir Masvidal.
„Ég man þegar ég hitti hann fyrst í London fyrir nokkrum vikum síðan. Stundum er fólk öðruvísi þegar kveikt er á myndavélunum, ég er eins hvort það eru myndavélar til staðar eða ekki. Ef þú ert ósáttur við mig þá útkljáum við það langt frá öllum myndavélum. Ég sá hann og hann lítur út fyrir að vera mjög harður. Við tókumst í hendur og ég hef ekkert slæmt að segja um mann sem er ekki einhver egóisti með eitthvað til að sanna. Hann veit hver hann er og fólk veit hvað hann er.“
„Ég er 26 ára núna og ég var að horfa á Masvidal þegar ég var mjög, mjög ungur. Ekki í búrinu heldur á götunum. Ég ber virðingu fyrir honum. Það þýðir ekki að ég vilji ekki drepa hann því ég vil gera það, en ég ber bara mikla virðingu fyrir honum.“
Bardagakvöldið fer fram á laugardaginn en bardagi Till og Masvidal verður aðalbardagi kvöldsins. Gunnar Nelson og Leon Edwards mætast sama kvöld í næststærsta bardaga kvöldsins.