spot_img
Wednesday, October 30, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentDemetrious Johnson: Allir frábærir meistarar tapa

Demetrious Johnson: Allir frábærir meistarar tapa

Demetrious Johnson tapaði sínum fyrsta bardaga í sjö ár í gær. Johnson tapaði fyrir Henry Cejudo eftir klofna dómaraákvörðun á UFC 227 og er ekki lengur fluguvigtarmeistarinn.

Fyrir helgina var Johnson fyrsti og eini meistarinn í sögu fluguvigtarinnar í UFC. Cejudo kom inn með frábæra leikáætlun og sigraði í mjög jöfnum bardaga. Bardaginn var mjög taktískur af hálfu Cejudo og notaði hann fellurnar vel til að vinna lotur.

Johnson sagði á blaðamannafundinum eftir bardagann að hann vilji að sjálfsögðu fá annað tækifæri gegn Cejudo en þarf fyrst að jafna sig á meiðslum sem hann varð fyrir í bardaganum.

„Ég held ég hafi sennilega slitið liðband í hnénu og hægri fóturinn gæti verið brotinn,“ sagði Johnson eftir bardagann en tók það þó skýrt fram að hann hafi verið heill fyrir bardagann.

Þetta var fyrsta tap Johnson síðan í október 2011 en þá tapaði hann fyrir Dominick Cruz um bantamvigtartitil UFC. Eftir það færði hann sig niður í fluguvigt og var ósigraður í 125 pundum þar til í gær.

„Það tapa allir. Allir frábærir meistarar tapa. Ég hef tapað áður þegar ég barðist við Dominick Cruz, ég tapa á æfingum þannig að ég er í góðu lagi. Ég hef meiri áhyggjur af meiðslunum, fyrir utan það er ég bara góður.“

„Þetta var frábær sigurganga en þetta er ekki búið ennþá. Ég geri þetta af því ég elska þetta. Ég hef nú þegar farið fram úr mínum væntingum. Ég var bara gaur sem vann í vöruhúsi með 10 dollara á tímann, hlaupandi heim til að horfa á Joseph Benavidez berjast við Dominick Cruz. Draumurinn minn var aldrei að verða heimsmeistari. Draumurinn minn var alltaf að læra blandaðar bardagalistir og svo fékk ég ástríðu fyrir því sem hefur leitt mig hingað. Ég er mjög ánægður með velgengni mína. Ég mun halda heim á leið, ná mér af meiðslunum og halda svo áfram.“

Eftir bardagann kvaðst Cejudo vilja mæta T.J. Dillashaw í bantamvigt en sagðist líka vera til í að gefa Johnson annað tækifæri á beltinu.

„Auðvitað vil ég fá annan bardaga gegn honum. Það er ekki eins og hann hafi rústað mér. Ég þarf samt að ná mér af meiðslunum í fyrsta lagi. Heilsan er í forgangi og ég mun ekki ákveða að berjast ef ég get ekki farið í gegnum átta vikna æfingabúðir.“

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular