Demian Maia sigraði Neil Magny síðastliðinn laugardag. Margir vilja sjá hann sem næsta andstæðing Gunnars en sjálfur veit Maia ekkert hver gæti verið næsti andstæðingur sinn.
Demian Maia er einn allra besti gólfglímukappi veraldar og margfaldur heimsmeistari í brasilísku jiu-jitsu. Hann er í sjötta sæti á styrkleikalista UFC og hefur sigrað þrjá bardaga í röð.
Eftir sigur hans á Magny um síðustu helgi var hann spurður út í mögulegan bardaga gegn Gunnari Nelson: „Ég var að berjast og núna vil ég bara fara heim og hugsa um fjölskylduna. Í næstu viku munum við skoða næstu skref, ég veit ekki hver er næstur. Ég mun tala við umboðsmanninn minn og hann mun ákveða andstæðinginn, það skiptir mig litlu máli hver það verður.“
Maia sagði þó að honum langi í einhvern fyrir ofan sig á styrkleikalistanum en síðustu þrír andstæðingar hans hafa verið neðar en hann á styrkleikalistanum (Alexander Yakovlev, Ryan LaFlare og Magny). Gunnar er í 11. sæti á styrkleikalistanum á meðan Maia er í því sjötta.
Maia kvaðst þó vera hraustur eftir bardagann og gæti verið tilbúinn í annan bardaga tiltölulega snemma en ítrekaði þó að hann myndi skoða málin í næstu viku.