Þungavigtarmaðurinn Derrick Lewis sagðist líklegast vera hættur eftir tapið gegn Mark Hunt á dögunum. Í The MMA Hour í gær lýsti hann því yfir að hann ætlaði sér að halda áfram þegar hann hefur jafnað sig á bakmeiðslum sínum.
Derrick Lewis tapaði fyrir Mark Hunt eftir tæknilegt rothögg í 4. lotu fyrr í mánuðinum. Þar með lauk sex bardaga sigurgöngu hans en Lewis virtist hreinlega eiga erfitt með að standa í bardaganum gegn Hunt. Lewis hefur átt við bakmeiðsli að stríða síðan 2011 og sagði hann í gær að hann hefði varla getað hreyft sig sökum sársauka í bardaganum gegn Hunt. Hann var því bara feginn þegar dómarinn Marc Goddard stöðvaði bardagann.
Lewis fer í segulómun á morgun í frekari skoðun. Hann vonast til að sleppa við aðgerð en ætlar að taka sér gott frí áður en hann snýr aftur í búrið. Lewis hefur verið einn af þeim duglegustu í þungavigtinni undanfarin ár en hann barðist sjö bardaga á síðustu 20 mánuðum og var það mikið álag á skrokkinn og heimilislífið. Það er ánægjulegt að hinn 32 ára Lewis ætli sér að halda áfram en hann vonast til að snúa til baka í desember.