Málaferlum í tengslum við slagsmálin á UFC 229 er nú sennilega lokið. Dillon Danis fékk í gær sjö mánaða bann fyrir sinn hlut í slagsmálunum.
Eftir bardaga Conor McGregor og Khabib Nurmagomedov á UFC 229 í haust varð allt gjörsamlega vitlaust. Um leið og Khabib hafði klárað Conor stökk sá fyrrnefndi yfir búrið og réðst að hornamönnum Conor. Upp frá því brutust út neyðarleg hópslagsmál.
Fyrr á árinu fengu þeir Khabib, Conor og liðsfélagar Khabib sín bönn. Khabib fékk níu mánaða bann en hann gæti stytt bannið í sex mánuði ef hann tekur þátt í myndbandi gegn einelti. Conor fékk sex mánaða bann en liðsfélagar Khabib, þeir Abubakar Nurmagomedov og Zubaira Tukhugov, fengu eins árs bann. Khabib virðist ekki ætla að reyna að stytta bannið og hefur sagt að hann ætli sér ekki að berjast fyrr en bönn liðsfélaga sinna klárast í október.
Dillon Danis fékk í gær sjö mánaða bann og 7.500 dollara sekt frá Íþróttasambandinu í Nevada (NAC). Samkvæmt NAC sýndi Danis óíþróttamannslega hegðun en öryggisverðir þurfti að halda honum í skefjum ítrekað þegar að hópslagsmálin brutust út. Þá var hann með dónalegt orðbragð gagnvart Nurmagomedov og liðsfélögum hans.
Líkt og bönn Conor og Khabib er bannið afturvirkt til 6. október og er klárar hann því bannið 6. maí.