Thursday, March 28, 2024
HomeErlentStenst Ben Askren pressuna?

Stenst Ben Askren pressuna?

Ben Askren berst sinn fyrsta bardaga í UFC á laugardaginn þegar hann mætir Robbie Lawler. Spurningin er hvort Ben Askren nái að standa við stóru orðin og haldist ósigraður meðal þeirra bestu.

Ben Askren hefur átt frábæran feril utan stærstu bardagasamtaka heims. Hann er ósigraður í 19 bardögum og var fyrsti veltivigtarmeistari Bellator. Eftir nokkur ár í Bellator fór hann í ONE Championship (þá ONE FC) þar sem hann barðist sjö bardaga. Askren lagði svo hanskana á hilluna árið 2017 og leit allt út fyrir að hann myndi aldrei berjast í UFC.

Í fyrrahaust komu svo þau óvæntu tíðindi að Demetrious Johnson hafi verið skipt fyrir Ben Askren. Askren kom því í UFC í skiptum fyrir einn besta bardagamann heims.

Á laugardaginn er svo loksins komið að frumraun Askren í UFC og er óhætt að segja að hann einfaldlega verði að vinna. Askren er eins og áður segir ósigraður og það er spennandi. Ef hann er bara rotaður af Robbie Lawler um helgina munu gagnrýnendur vera fljótir að segja að hann hafi aldrei verið eins góður og hann sagðist vera og að hann hafi einfaldlega verið stór fiskur í lítilli tjörn. Robbie Lawler getur rotað alla og gæti tekið tíma fyrir Askren að vinna sig aftur upp ef hann tapar sínum fyrsta bardaga í UFC. Tap í fyrsta bardaganum í UFC myndi strax gera Askren minna spennandi í augum aðdáenda. Sigur í fyrsta bardaga gegn fyrrum meistara myndi aftur á móti svara mörgum spurningum um getu Askren.

Við höfum líka áður séð það að bardagamenn sem hafa verið meistarar í öðrum bardagasamtökum hefur ekkert vegnað neitt alltof vel í UFC. Hector Lombard náði aldrei sömu hæðum í UFC eins og í Bellator, Will Brooks var langt frá toppnum þegar hann var í UFC, tími Cro Cop í UFC olli vonbrigðum og Gilbert Melendez tókst ekki að verða meistari í UFC eins og hann ætlaði sér.

Það verður áhugavert að fylgjast með Ben Askren gegn þeim bestu í veltivigtinni og sagðist hann ætla að kíkja til London á UFC bardagakvöldið þar ef hann sigrar Lawler. Askren hefur áhuga á að mæta Masvidal eða Till enda líkar honum illa við þá báða. Þess ber þó að geta að Askren og Woodley eru góðir vinir og æfa saman. Það er því ólíklegt að Askren muni skora á meistarann Tyron Woodley í náinni framtíð á meðan hann er með beltið.

UFC 235 fer fram á laugardaginn í Las Vegas en bardagi Askren og Lawler er þriðji síðasti bardagi kvöldsins.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular