Eins og kom fram í morgun hefur Donald Cerrone neyðst til þess að draga sig úr bardaganum gegn Robbie Lawler á UFC 213. Cerrone er með blóðsýkingu og getur ekki barist á næstunni.
Bardaginn var einn sá mest spennandi á UFC 213 sem fram fer þann 8. júlí og því mikil vonbrigði að Cerrone geti ekki barist. Cerrone greindi frá því á Instagram í kvöld að hann væri ekki meiddur heldur með sýkingu.
„Langaði bara að láta alla vita að þetta eru ekki meiðsli heldur mjög slæm sýking í blóðinu. Sjö dagar af næringu í æð og ég verð kominn aftur af stað. Erum að vinna í að setja bardagann aftur á dagskrá síðar,“ sagði Cerrone við myndina.
Í fyrstu var talið að bardaganum yrði frestað til 29. júlí þegar UFC 214 fer fram. Dana White, forseti UFC, sagði hins vegar að það væri of snemmt.
„Cowboy Cerrone er nagli. Hann er alltof harður og hann vildi berjast. Hann er hins vegar með rifinn nára, með mar frá hnénu og upp í nára og svo er hitt hné stökkbólgið. Og svo er hann með sýkingu. Gæti hann barist [á UFC 214]? Sennilega. Ætti hann að berjast við Robbie Lawler með rifinn nára? Nei, það ætti hann ekki að gera. Hann mun ná heilsu og við setjum bardagann aftur á dagskrá. Hann mun ekki berjast í Anaheim,“ sagði White en UFC 214 fer fram í Anaheim í Kaliforníu.
Cerrone hefur alltaf verið þekktur fyrir að berjast hvar og hvenær sem er og vill helst berjast í hverjum mánuði. Þetta er í fyrsta sinn á löngum feril sem hann hefur þurft að draga sig úr bardaga.
#UFC213 marks the first time in @Cowboycerrone‘s career that he’s withdrawn from a fight. He’s made 34 appearances under UFC/WEC banners.
— Mike Bohn (@MikeBohnMMA) June 28, 2017