Donald Cerrone fór ekki vel út úr 40 sekúndna bardaganum gegn Conor McGregor á laugardaginn. Cerrone verður frá í einhverja mánuði samkvæmt NAC.
Cerrone át högg, spörk og axlarhögg á 40 sekúndum á laugardaginn. Í gær sendi NAC (íþróttasambandið í Nevada) frá sér keppnisbönn í kjölfarið á læknisskoðun sem allir bardagamenn gengust undir eftir bardagana á laugardaginn. Samkvæmt læknisskoðuninni var Cerrone með brotið nef og smávægileg brot í augntóftinni.
Cerrone fær því 6 mánaða keppnisbann vegna meiðslanna nema læknir úrskurði hann keppnishæfan fyrr. Cerrone má því ekki keppa aftur fyrr en 17. júlí en sjaldgæft er að menn sitji á hliðarlínunni alla sex mánuðina.
Samkvæmt föður Maycee Barber var hún með slitið krossband eftir bardagann gegn Roxanne Modafferi. Barber verður sennilega frá keppni í 9-12 mánuði.
Anthony Pettis og Carlos Diego Ferreira fengu einnig sex mánaða bann nema frekari skoðun leiði í ljós að þeir geti barist fyrr.