Donald Cerrone vill fá Conor McGregor næst ef marka má nýjustu færslu hans á Instagram. Cerrone ætlar niður í léttvigt og segist vera að bíða eftir Conor.
Donald Cerrone ætlar að fara aftur niður í léttvigt eftir að hafa verið í veltivigt undanfarin tvö ár. Cerrone hefur verið í léttvigt nánast allan sinn feril en árið 2016 ákvað hann að fara upp í veltivigt. Cerrone sigraði Mike Perry um síðustu helgi með armlás í 1. lotu en eftir bardagann sagðist hann vera á leið í Khabib Nurmagomedov, ríkjandi léttvigtarmeistara UFC.
Cerrone vill fá Conor í endurkomu sinni í léttvigt og sagðist vera að bíða eftir honum.
Conor McGregor er samt ekkert á leið í búrið aftur fyrr en hann klárar mál sitt við NAC (íþróttasamband Nevada fylkis) eftir hópslagsmálin í kjölfarið á bardaganum gegn Khabib í október. Bæði Conor og Khabib þurfa að mæta fyrir nefndina mánudaginn 10. desember og mun UFC ekki bóka þá í aðra bardaga fyrr en það klárast.
Conor McGregor hefur ekkert talað um sín næstu skref sem bardagamaður en Dana White, forseti UFC, sagði fyrr í mánuðinum að Conor vill helst fá endurat gegn Khabib eða bardaga sem kemur honum aftur í titilbardaga sem fyrst.