Driss El Bakara er óþekktur bardagamaður frá Frakklandi. Einhverjir Íslendingar ættu þó að kannast við nafnið þar sem Bakara er fyrsti andstæðingurinn sem Gunnar Nelson sigraði. Við tókum tal á Bakara sem hafði margt gott að segja um Gunnar.
Gunnar og Bakara áttust við í september 2007 í Englandi. Á þeim tíma var Gunnar aðeins með einn bardaga að baki (jafntefli gegn John Olesen) og Bakara með þrjá bardaga (einn sigur, eitt tap og eitt jafntefli).
„Upphaflega átti ég að berjast við Adrian Degorski en því miður braut hann á sér höndina 15 dögum fyrir bardagann. Í hans stað fékk ég Gunnar sem ég vissi ekkert um og það eina sem ég hafði séð voru myndbönd af honum á æfingum. Eina sem ég vissi var að hann var með einhvern bakgrunn í glímu, ekkert annað,“ segir Bakara
Bakara man vel eftir bardaganum sem entist þó ekki lengi. „Ég ætlaði að treysta á boxgetu mína og beið eftir að Gunnar myndi koma inn svo ég gæti komið höggum á hann. Búrið var lítið, eftir nokkrar hreyfingar og eitt skref aftur fann ég að ég var kominn upp við búrið þar sem Gunnar skaut leiftursnöggt inn með fellu. Hann náði mér niður og náði fljótt „mount“ og var með öflugt „ground and pound“ áður en hann náði mér í „armbar“. Ég held þó að stærð búrsins hafi ekki skipt neinu máli, hann hefði alltaf unnið mig,“ segir Bakara og hlær.
Bakara talar vel um Gunnar. „Eftir bardagann fylgdist ég alltaf vel með stráknum og það kom mér ekki á óvart að hann skyldi sigra alla andstæðinga sína eins og hann sigraði mig. Mér leið eins og tap mitt hafi ekki verið vegna eigin mistaka heldur frekar vegna ótrúlegri hæfni hans. Stuttu seinna heimsótti hann og þjálfari hans, John Kavanagh, okkur á æfingu. Gunnar er ótrúlega hógvær og alltaf tilbúinn til að deila visku sinni.“
Það kom Bakara ekkert á óvart að Gunnar skyldi ná alla leið í UFC. „Eftir alla sigrana hans og góðan árangur á BJJ mótum voru allir að tala um hann í evrópsku MMA-senunni. Það var í raun bara tímaspursmál hvenær hann myndi fara í UFC.“ Bakara lærði margt af bardaganum og þá helst að maður þarf að vinna virkilega vel í gólfglímunni til að komast langt í íþróttinni.
Bakara hefur ekki barist síðan árið 2011 en segist ekki vera hættur. „Ég myndi gjarnan vilja berjast aftur en til að undirbúa sig fyrir bardaga þarf maður að setja vinnuna, einkalífið og allt annað á hliðarlínuna. Á þessari stundu get ég ekki gert það en hver veit hvað gerist, ég hef ennþá áhuga á að berjast,“ segir Bakara en hann æfir hjá bræðrunum Samy og James Schiavo.
Gunnar Nelson VS Driss El Bakara (2007) from Mjolnir MMA on Vimeo.