Friday, April 26, 2024
HomeErlentEinn mikilvægasti bardagi samtímans fer fram í kvöld

Einn mikilvægasti bardagi samtímans fer fram í kvöld

kimbo kenÍ kvöld fer fram gríðarlega mikilvægur bardagi í sögu MMA. Bardagans hefur verið beðið eftir í fjölda ára og í kvöld er biðin loks á enda – Kimbo Slice og Ken Shamrock eigast við á Bellator 138.

Bellator 138 ber viðeigandi titil, Unfinished business. Kimbo Slice og Ken Shamrock áttu upphaflega að berjast á EliteXC í október 2008. Shamrock hætti við bardagann aðeins nokkrum klukkustundum fyrir bardagann þar sem hann hafði fengið skurð. Nú, sjö árum síðar, geta þeir loksins barist.

Kapparnir gætu ekki verið ólíkari. Kimbo Slice varð heimsfrægur fyrir götuslagsmál á Youtube og kom seint inn í MMA. Vegna frægðar hans á Youtube trekkir hann gríðarlega að og má búast við miklum fjölda áhorfenda á Spike TV í kvöld. Kimbo er þekktastur fyrir gott box og hafði fyrst um sinn lítin áhuga á glímunni. Í dag er viðhorf hans betra en það mun enginn ruglast á Kimbo og jiu-jitsu heimsmeistara.

Ken Shamrock er frumkvöðull í íþróttinni en hann keppti í fyrstu keppni UFC árið 1993. Glíman er hans helsti styrkleiki enda hefur hann sigrað 22 bardaga eftir uppgjafartak. Fyrsti MMA bardagi Shamrock fór fram í september 1993 en fyrsti bardagi Kimbo fór fram í nóvember 2007, 14 árum síðar en Shamrock.

Báðir eru komnir af léttasta skeiði en Shamrock er 51 árs gamall á meðan Slice er 41 árs. Slice hefur ekki barist í MMA í fimm ár og einbeitt sér að boxi með góðum árangri (7-0). Andstæðingar hans verða þó seint sagðir heimsmeistarar en sigur er sigur.

Ken Shamrock hefur heldur ekki barist í fimm ár. Hann hefur tapað sjö af síðustu níu bardögum og er langt frá því að vera „The most dangerous man in the world“ líkt og áður fyrr. Hér að neðan má sjá einn af hans síðustu sigrum.

Bardaginn fer fram í þungavigt en Shamrock var undir léttþungavigtarmörkunum. Shamrock var tæp 93 kg (204,4 pund) á meðan Kimbo var 105,5 kg (232 pund). Shamrock verður í kvöld 12 kg léttari og tíu árum eldri en Kimbo Slice en með næstum sjöfalt meiri reynslu í MMA.

Þrátt fyrir að aðalbardagi Bellator 138 sé hálfgert grín eru aðrir flottir bardagar á dagskrá. Fjaðurvigtarmeistarinn Patricio Freire ver titil sinn gegn Daniel Weichel og fyrrum léttvigtarmeistarinn Michael Chandler mætir Derek Campos. Bellator 138 fer fram í kvöld en bardagarnir fara fram í St. Louis, Missouri.

ken shamrock
Þrátt fyrir að vera 51 árs er Shamrock í hörku formi.
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular