Elmar Gauti (20-10 ) átti hrikalega gott ár og var valinn Boxari Ársins af Fimmtu Lotunni. Elmar var mjög virkur heimafyrir á árinu og klárar árið taplaust á Íslandi en þurfti að sætta sig við tvö töp gegn dönskum landsliðsmönnum úti.
Hann varð til að mynda bikarmeistari HNÍ og keppti á báðum Icebox mótunum þar sem hann sigraði Aleksandr Baranovs frá Bogatýr í tvígang. Í seinni bardaganum leyndi það sér ekki hversu miklum framförum Elmar hafði náð á hálfu ári og sigraði hann seinni viðureignina gegn Aleksandr með töluverðum yfirburðum. Elmar vann Icebox titilinn þetta sama kvöld og því fylgdi auðvitað beltið góða og hringurinn.
Elmar byrjaði sinn boxferil í Mjölni fyrir 10 árum en hefur undanfarin 4 ár æft undir Davíð Rúnari, núverandi landsliðsþjálfara. Elmar sagði eftir Icebox að hann og Davíð stefndu enn lengra á nýju ári og er stefnan sett á Norðurlandameistaramótið 2024 ásamt því að vilja keppa á atvinnumannastigi.