spot_img
Wednesday, December 11, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeBoxHafþór Magnússon Icebox Champion stöðvaði Ibrahim í 1. lotu

Hafþór Magnússon Icebox Champion stöðvaði Ibrahim í 1. lotu

Einum allra besta Icebox viðburði sem haldinn hefur verið var að ljúka rétt í þessu í Kaplakrika. Hafþór Magnússon sigraði Ibrahim Kolbein Jónsson í aðalbardaga kvöldsins eftir að dómarinn stöðvaði bardagann í 1. lotu og vann Hafþór sér inn titilinn Icebox Champion. Viðureign Elmars Gauta Halldórssonar og Gabríels Marínós Róbertssonar var valinn bardagi kvöldsins.

Margir æsispennandi bardagar voru á þessum viðburði sem margir kölluðu besta Icebox viðburð til þessa. Aðal kortið byrjaði á viðureign Teits Þórs Ólafssonar og Daniel Rosa. Daniel Rosa byrjaði mjög sterkt og var Teitur í miklum vandræðum með hann í fyrstu lotu. Daniel óð í hann með víðum sveiflum og hitti hann nokkrum sinnum með mjög þungum höggum. Teitur gerði vel í að veðra storminn í fyrstu lotu og fann svo taktinn sinn, fjarlægðarskyn og tímasetningar mun betur í þeirri annarri þó hann hafi vissulega verið sleginn niður undir lok annarar lotu. Í þriðju lotu var greinilegt að ekki var mikið eftir á gastanknum hjá Daniel Rosa sem átti í miklum erfiðleikum með að verjast höggum Teits sem valdi skotin sín vel og var ekki langt frá því að hreinlega klára hann. Bardaginn endaði á klofinni dómaraákvörðun sem fór í horn Teits en önnur lota var klárlega lotan sem skar úr um sigurvegarann þar sem Daniel var sannfærandi í fyrstu og Teitur mjög sannfærandi í þriðju. Teitur sýndi mikið hjarta með því að koma tilbaka eftir að hafa lent í miklum vandræðum snemma

Þar á eftir mættust Erika Nótt Einarsdóttir og Hildur Kristín Loftsdóttir í tíunda skipti og endaði bardaginn á klofinni dómaraákvörðun, og ekki var það í fyrsta skipti sem bardagi milli þeirra tveggja endar á þann hátt. Erika byrjaði bardagann vel og tók líklega fyrstu lotuna en Hildur kom mjög sterk inní næstu lotu, hitti mörgum góðum höggum og tók hana sannfærandi. Þriðja lotan var hnífjöfn og því var mikil spenna í loftinu þegar úrskurðurinn var lesinn upp.

Elmar Gauti Halldórsson fór upp um tvo þyngdarflokka til þess að mæta Gabríel Marínó Róbertssyni í -86kg flokki í næst síðasta bardaga kvöldsins. Gabríel kom sterkur inn og lét Elmar finna vel fyrir því í fyrstu lotu og líklega tók hann þá lotu en Elmar hrökk í gang í annarri lotu og eins og svo oft áður gaf hann fólkinu í salnum og heima í stofu algjöra flugeldasýningu í seinni tveimur lotunum.

Í aðalbardaga kvöldsins mættust Hafþór Magnússon og Ibrahim Kolbeinn Jónsson. Það var spennuþrungin stund þegar þeir mættust í miðjum hringnum fyrir bardaga og störðu hvorn annan niður. Ibrahim var mjög léttur á fæti og passaði sig að hleypa Hafþóri ekki of nálægt sér til að byrja með. Hafþór var þó ekki lengi að finna hægrihandarhöggin sín þegar hann náði að loka fjarlægðinni og smellti hann með nokkrum níðþungum höggum. Dómarinn gaf Ibrahim standandi talningu eftir fyrsta þunga höggið sem hann varð fyrir og Hafþóri tókst að slá Ibrahim niður í tvígang eftir það og dómarinn veifaði bardagann af eftir seinna skiptið. Mögulega var Ibrahim þó ekki sleginn niður í öðru tilvikinu heldur virtust þeir skella saman hausunum en dómarinn túlkaði það þó sem högg.

Glæsilegt Icebox í alla staði. Undir kortið var einnig spennandi þar sem Sigurbergur Einar Jóhannsson, Róbert Smári Jónsson og Artem Siurkov sigruðu sína bardaga. Herra Hnetusmjör sá um hálfleiks tónlistaratriðið og fleiri vinsælir tónlistarmenn gengu inn með bardagamönnum á aðal kortinu.

spot_img
spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular