Norðmaðurinn Emil Weber Meek og Bandaríkjamaðurinn Kevin Lee verða gestabardagamennirnir á UFC bardagakvöldinu í Glasgow. Gunnar Nelson mætir Santiago Ponzinibbio í aðalbardaga kvöldsins.
UFC fær alltaf 2-3 gesti á bardagakvöldin sem eru annað hvort fyrrum eða núverandi bardagamenn. Þeir Lee og Meek munu sennilega sitja fyrir svörum aðdáenda á sérstökum Q&A viðburði skömmu áður en vigtun hefst og taka myndir með aðdáendum. Fullbúin dagskrá fyrir viðburðinn (upplýsingar um vigtun og fleiri viðburði) kemur á sunnudaginn.
Þetta eru alltaf skemmtilegir viðburðir og hvetjum við þá sem ætla á bardagakvöldið í Skotlandi að mæta snemma í vigtunina til að hlusta á bardagamennina. Kevin Lee er 7. sæti styrkleikalistans í léttvigtinni en hann sigraði Michael Chiesa á dögunum í aðalbardaga kvöldsins.
Norðmaðurinn Emil Meek er 1-0 í UFC en hann átti að mæta Nordine Taleb á UFC bardagakvöldinu í Svíþjóð í maí. Hann þurfti því miður að draga sig úr bardaganum vegna meiðsla en er kominn aftur af stað og fær væntanlega bardaga fljótlega. Meek er afar skemmtilegur karakter og hefur tvívegis komið til Íslands við æfingar í Mjölni.
UFC bardagakvöldið í Skotlandi fer fram sunnudaginn 16. júlí.