Sean O’Malley berst sinn fyrsta bardaga í kvöld í tvö ár. USADA vesen hefur haldið honum frá búrinu en loksins fær hann að berjast.
Sean O’Malley hlaut mikla athygli fyrir innkomu sína í UFC árið 2017. Sigur hans gegn Andre Soukhamthath í mars 2018 var flottur en síðan hefur hann ekki barist.
Sean O’Malley átti að mæta Jose Alberto Quinonez í október 2018 en skömmu fyrir bardagann féll O’Malley á lyfjaprófi. Ostarine fannst í lyfjaprófinu hans en O’Malley fékk bara sex mánaða bann þar sem talið var að efnið hefði komið úr menguðu fæðubótarefni.
O’Malley átti síðan að snúa aftur síðasta sumar gegn Marlon Vera en aftur var hann dreginn úr bardaganum þar sem ostarine fannst í lyfjaprófinu hans.
O’Malley fylgdist vel með fæðubótarefnunum sínum sem hann var að taka, hélt matardagbók og gekkst undir fleiri lyfjapróf til að komast að því hvaðan efnið væri að koma. Niðurstaða USADA var sú að O’Malley hefði aftur ekki viljandi tekið inn efnið. Aftur náði O’Malley að sýna að ólöglega efnið hefði komið úr fæðubótarefni.
O’Malley fékk því sex mánaða bann sem hófst 6. ágúst 2019 og kláraðist þann 6. febrúar.
O’Malley snýr því aftur í búrið í kvöld og mætir Quinonez í kvöld en O’Malley er 10-0 sem atvinnumaður með tvo sigra í UFC. O’Malley telur sigrana ekki merkilega í dag þar sem báðir andstæðingar hans í UFC eru ekki lengur í UFC.
O’Malley hefur nýtt tímann vel á meðan hann var í banninu og æft vel en fjarveran frá búrinu hefur verið erfið. Vonandi eru USADA örðugleikar hans að baki enda O’Malley mikill skemmtikraftur.