Saturday, April 20, 2024
HomeForsíðaEr Anderson Silva mótiveraður fyrir bardagann gegn Weidman?

Er Anderson Silva mótiveraður fyrir bardagann gegn Weidman?

Anderson-Silva-winningAnderson Silva tapaði millivigtartitlinum til Chris Weidman í júlí á þessu ári. Fram að því hafði hann verið ósigraður í UFC og leit út fyrir að vera ósigrandi. Weidman rotaði Silva þegar Silva var að leika sér og hagaði sér á kjánalegan hátt. Þessir trúðsstælar hafa dregið máttinn úr mörgum andstæðingum Silva áður fyrr en Weidman lét þetta ekki hafa mikil áhrif á sig og lét vaða á meistarann og það borgaði sig.

Eftir bardagann sagði Silva að hann væri þreyttur, þreyttur á að verja titilinn enda hafði hann verið meistari í tæp sjö ár. Hann vildi frekar einbeita sér að fjölskyldunni og fá að berjast skemmtilega bardaga í stað þess að berjast um beltið. Á leið inn í búningsklefa labbaði Silva niðurbrotinn maður og virtist vera búinn að yfirgefa millivigtina fyrir fullt og allt, 38 ára gamall. Á meðan gekk Weidman sigri hrósandi inn í klefa á meðan tónar Bruce Springsteen, “Born In The USA”, hljómuðu um höllina.

Myndbönd úr herbúðum Silva sýndu hann niðurbrotinn og tárast eftir bardagann en fékk þó góð hvatningarorð frá Roy Jones Jr. og Usher, eins undarlega og það hljómar. Á blaðamannafundinum leit ekki út fyrir að annar bardagi milli Weidman og Silva myndi eiga sér stað. Silva sagði að hann væri þreyttur á að verja beltið og óskaði Weidman góðs gengis í millivigtinni. Dana White var þó ekki á sama máli og var handviss um að hann gæti sannfært Silva um að berjast aftur við Weidman.

Nú eru 10 dagar í að þeir mætast aftur og eru aðdáendur spenntir fyrir því að sjá besta bardagamann allra tíma sækja hefnda. En langar Silva að sigra Weidman eða fékk hann tilboð frá Dana White sem var of gott til að hafna? Var Silva of niðurbrotinn í búrinu strax eftir bardagann til að hugsa skýrt og þess vegna talað um að hann væri þreyttur á að verja titilinn eða er hann búinn að fá nóg? Það er erfitt að átta sig á hvað gengur á í huga Silva og hvort þetta séu bara peningarnar sem fá Anderson Silva til að berjast aftur eða ekki en slíkt getur aðeins hann svarað. Undirritaður er á þeirri skoðun að Silva sé enn þreyttur á að vera meistari og sé ekkert sérstaklega mótiveraður til að ná beltinu aftur. Það að vera meistari í sjö ár tekur á, bæði á líkama og sál, og spurning hvort að Silva sé kominn með nóg. Mun Weidman reyna að rota Silva aftur eða taka hann niður? Kemur Silva brjálaður til leiks og slátrar Weidman eins og fyrri andstæðingum sínum? Þessum spurningum, og fleirum, verður ekki svarað fyrr en 28. desember þegar þeir mætast aftur. 

Í þessu myndbandi fullvissar hann aðdáendur að hann sé tilbúinn til að takast á við Weidman, “I back, trust me, I back”.

Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular