Fabricio Werdum fékk í gær tveggja ára keppnisbann frá USADA eftir fall á lyfjaprófi. Werdum féll á lyfjaprófi í vor en hann verður 43 ára þegar bannið klárast.
Fabricio Werdum átti að keppa gegn Aleksei Oleinik á UFC bardagakvöldinu í Moskvu næsta laugardag. Skömmu eftir að bardaginn var staðfestur kom Mark Hunt í stað Werdum þar sem sá síðarnefndi féll á lyfjaprófi.
Werdum var tekinn í lyfjapróf utan keppnis þann 25. apríl. Í ljós kom að anabóliski sterinn trenbolone og efnið epitrenbolone fundust í lyfjaprófinu. USADA dæmdi hann í gær í tveggja ára keppnisbann en bannið nær aftur frá 22. maí og mun því ljúka þann 22. maí 2020.
Það tók USADA rúma þrjá mánuði að klára mál Werdum en USADA á enn eftir að komast að niðurstöðu í máli Jon Jones. 13 mánuðir eru liðnir síðan í ljós kom að Jones hefði fallið á lyfjaprófi.