Það var líf og fjör að venju á blaðamannafundinum fyrir UFC 205. Conor McGregor mætti seint, tók beltið hans Eddie Alvarez á meðan hann var fjarverandi.
Allir bardagamennirnir sem berjast í titilbardögunum á laugardeginum voru á blaðamannafundinum ásamt Dana White, forseta UFC.
Eddie Alvarez var miðpunktur athyglinnar í upphafi blaðamannafundarins enda Conor McGregor ekki mættur og írsku aðdáendurnir bauluðu í hvert sinn sem Alvarez greip í hljóðnemann.
Alvarez bar sig þó mjög vel og var með skemmtileg svör. Hann lét írsku áhorfendurna heyra það og bauð þeim að hitta sína aðdáendur frá Philadelphiu.
Eftir nokkrar mínútur af blaðamannafundinum ákvað Alvarez að ganga af blaðamannafundinum þar sem Conor var ekki enn mættur. „Ég er ekki einu sinni með andstæðing hérna. Hringið í mig þegar hann mætir,“ sagði Alvarez og gekk af sviðinu.
Á meðan fengu aðrir bardagamenn sviðsljósið en ljóst að flestir biðu eftir að Conor og Alvarez kæmu.
Loksins kom Conor McGregor, klæddur í hvítum pels, dansandi inn á sviðið og stal beltinu hans Alvarez á meðan hann var fjarverandi. Alvarez mætti skömmu síðar og hrifsaði beltið og leit út fyrir að allt myndi verða vitlaust líkt og á blaðamannafundinum fyrir UFC 202. Alvarez henti sínum stól frá og Conor greip stólinn sinn og virtist ætla að kasta stólnum í Alvarez en öryggisgæslan hljóp inn í.
Another melee almost happened at the #ufc205 press conference pic.twitter.com/TaI3z1AW3x
— MMAFighting.com (@MMAFighting) November 10, 2016
Conor var fljótur að róa sig þó og hélt blaðamannafundurinn áfram.
Það var mikil spenna á milli þeirra Conor og Alvarez allan blaðamannafundinn og skotin þeirra á milli voru ekki falleg. Alvarez sagði Conor að biðjast afsökunar á ummælum sínum um fjölskyldu sína en Conor sagði á dögunum að börnin hans og kona myndu ekki þekkja Alvarez eftir bardagann. Afsökunarbeiðnin hjá Conor var einföld: „Sjúgðu þessa stóru írsku bolta,“ sagði Conor og var hann ekki að tala um fótbolta.
Conor McGregor hefur lofað stórri tilkynningu eftir UFC 205, nokkuð sem hann mun tilkynna strax eftir bardagann. Fjölmiðlamenn spurðu mikið um tilkynninguna en Conor gaf ekkert upp. Alvarez sagðist þó vita hver tilkynningin væri: „Conor á von á tveimur börnum en kærastan hans er ekki að eignast tvíbura. Þið getið reiknað þetta sjálf.“
Greinilega ekkert heilagt hjá hvorugum í aðdraganda bardagans.
Blaðamannafundurinn var svo sannarlega áhugaverður en áður en honum lauk mættust bardagamennirnir augliti til auglits á sviðinu.
Þær pólsku Joanna Jedrzejczyk og Karolina Kowalkiewicz voru ákafar á sviðinu og sögðu ýmislegt ekkert sérstaklega vinsamlegt á pólsku við hvor aðra. Þær fóru alveg að hvor annarri, enni upp að enni, áður en Jedrzejczyk ýtti Kowalkiewicz frá sér með enninu.
Stephen Thompson og Tyron Woodley voru rólegir en Dana White stóð allan tímann á milli Eddie Alvarez og Conor McGregor. UFC 205 fer fram á laugardaginn þar sem þeir Eddie Alvarez og Conor McGregor mætast í aðalbardaga kvöldsins.
Það var mikill hamagangur á blaðamannafundinum en þegar mest var voru um 164 þúsund manns að horfa á blaðamannafundinn í beinni á Youtube. Hér má sjá blaðamannafundinn í heild sinni.