spot_img
Friday, October 4, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeForsíðaFloyd Mayweather - frá Pretty Boy til Money

Floyd Mayweather – frá Pretty Boy til Money

Aðeins tveir dagar eru í risabardaga Manny Pacquiao og Floyd Mayweather Jr. í Las Vegas. Floyd Mayweather, eða Floyd Joy Sinclair eins og hann var skírður, er tekjuhæsti íþróttamaður heims þó svo að hann keppi í mesta lagi tvisvar á ári. Hann er ósigraður í 47 bardögum og hefur barist við flesta af þeim allra bestu á ferlinum. Við litum yfir feril Pacquiao í gær en nú er röðin komin að Mayweather.

Floyd Mayweather Jr. kemur úr hnefaleikafjölskyldu og kynntist því íþróttinni mjög snemma. Faðir hans barðist 35 sinnum. Hann vann aldrei einn af stóru titlunum en barðist meðal annars tíu lotur við Sugar Ray Leonard. Frændur hans Jeff Mayweather og Roger Mayweather áttu einnig góða ferla en ekkert í líkingu við drenginn sem var kallaður Pretty Boy af því að hann fékk aldrei á sig skrámu í bardögum sínum. Fjölskyldan bjó við talsverða fátækt í erfiðu hverfi en skorti þó aldrei grunn nauðsynjar eins og keppinautur hans frá Filippseyjum. Ekkert annað en ferill sem boxari kom til greina og því hætti hann snemma í skóla og æfði og æfði og æfði.

floyd_olympics

Mayweather átti mjög góðan feril sem áhugamaður (84-6) og vann m.a. bronsverðlaun á Ólympíleikunum árið 1996. Eina tapið hans á Ólympíuleikunum var umdeilt tap gegn Búlgaranum Serafim Todorov í undanúrslitum. Talið er að spilling og ótti við forstöðumann búlgarska hnefaleikasambandsins hafi haft áhrif á dómaraákvörðunina en allir í salnum (og dómarinn í hringnum sem rétti upp hönd Mayweather) töldu að Mayweather hefði farið með sigur af hólmi. Þetta varð til þess að Mayweather ákvað snemma að fara yfir atvinnumannahnefaleika.

Nokkrum mánuðum eftir Ólympíuleikana barðist hann sinn fyrsta atvinnumannabardaga. Það er áhugavert að heyra lýsandann segja Mayweather vera „power puncher“ sem getur klárað bardaga með einu höggi. Í dag er Mayweather talsvert öðruvísi og gaman að sjá þróunina á hans stíl. Hér að neðan má sjá hans  fyrsta atvinnumannabardaga gegn Roberto Apodaca.

Mayweather vakti strax mikla athygli fyrir mikla hæfileika. Í hans 18. bardaga, þá aðeins 21 árs, mætti hann WBC meistaranum Genaro Hernández sem hafði áður barist við Oscar De La Hoya og varið titil sinn þrisvar sinnum. Mayweather útboxaði Hernández sundur og saman og að lokum gafst hann upp eftir átta lotur. Sex sigrum síðar mætti Mayweather ósigruðum rotara og IBF meistara, Diego „Chico“ Corrales, í bardaga sem allir voru að bíða eftir. Corrales, sem lést árið 2007 í mótorhjólaslysi, var hrikalega höggþungur en tókst ekki að lenda stóru höggunum gegn Floyd Mayweather Jr. Þess í stað hélt Mayweather Corrales frá sér með frábærum stungum í líkama og höfuð og stökk inn með banvæna króka. Corrales var sleginn fimm sinnum niður í bardaganum sem var miskunnalega stöðvaður af horninu hans í tíundu lotu.

Hér er bardagi þeirra í fullri lengd:

https://www.youtube.com/watch?v=cW7oj7QosjA

Eftir góða sigra á móti Carlos Hernéndez og Jesús Chávez mætti Mayweather einum af hans erfiðustu andstæðingum, José Luis Castillo frá Mexíkó. Castillo notaði mikla pressu og vinnusemi og komst mjög nálægt því að sigra Mayweather á stigum. Bardaginn þótti það jafn að þeir börðust strax aftur en þá hafði Mayweather lært af mistökum sínum, aðlagað stílinn og sigraði Castillo örugglega á stigum.

Floyd Mayweather Jr. barðist tvisvar í léttvigt (135 pund) til viðbótar og þyngdi sig svo upp í léttveltivigt (140 pund) þar sem hann barðist þrisvar sinnum, meðal annars gegn Arturo Gatti, áður en hann flutti sig upp í veltivigt (147 pund) þar sem hann berst enn í dag með viðkomu í súperveltivigt (154 pund). Floyd Mayweather hefur undanfarin ár unnið alla helstu titlana (IBF, WBA og WBC) og sigrað stórstjörnur á borð við Oscar De La Hoya, Miguel Cotto, Shane Mosley, Juan Manuel Márquez, Ricky Hatton og Saúl Álvarez. Hann hefur líka barið niður unga og hungraða áskorendur eins og Victor Ortiz, Robert Guerrero og Marcos Maidana. Eftir allt þetta er Floyd Mayweather ennþá ósigraður eftir 19 ár sem atvinnumaður í hnefaleikum. Það er hreint út sagt ótrúlegt.

floyd_money

Floyd Mayweather er einn ríkasti íþróttamaður heims og fékk viðurnefnið „Money“ á síðari árum þegar hann henti peningahrúgu í myndavél. Að sögn Mayweather þótti honum ekki viðeigandi að vera kallaður „Pretty Boy“ orðinn 35 ára gamall. Það er mikið til í því, auk þess passar „Money“ mun betur við ímynd Mayweather í dag sem nútíma súperstjarna og milljónamæringur. Sigri hann Manny Pacquiao á laugardaginn gæti hann hæglega lagt hanskana á hilluna og verið viðurkenndur sem einn besti boxari allra tíma.

Sjá einnig: Þjóðhetjan Manny Pacquiao

spot_img
spot_img
RELATED ARTICLES

1 COMMENT

  1. Einn sá besti allara tíma nei hann nær ekki topp 10 ef við förum aftur í tíman þá eru svo hriklaegir boxarar sem voru á undan hann er hinsvegar besti boxari sinnar kynslóðar og það er ekki slæmt.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img

Most Popular