Monday, May 27, 2024
HomeForsíðaFöstudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night 35: Rockhold vs. Philippou

Föstudagshugleiðingar eftir UFC Fight Night 35: Rockhold vs. Philippou

UFC Fight Night 35 fór fram síðastliðin miðvikudag og áttust þar við nokkrir minna þekktir spámenn. Hér er það mikilvægasta frá þessum viðburði:

Dillashaw var mjög sannfærandi gegn Easton

 

Charlie Brenneman snýr aftur í UFC. Og tapar fyrir óþekktum nýliða.

Brenneman samþykkti bardagann gegn hinum unga og óþekkta Beneil Dariush með skömmum fyrirvara og tapaði síðan snemma í fyrstu lotu. Dariush kom frá Respect in the Cage samtökunum, sem ég leyfi mér að fullyrða að fæstir hafi heyrt um. Þetta tap mun því ekki gera mikið fyrir feril Brenneman en bardaginn markaði endurkomu hans í UFC eftir fjóra sigra í minni samtökum árið 2013. Hann er nú með 4-5 bardagaskor innan UFC og hefur tapað síðustu þrem – öllum í fyrstu lotu.

Gott högg og RNC henging hjá nýliðanumGott högg og RNC henging hjá nýliðanum

 

Brad Tavares sigrar fimmta UFC bardagann í röð en samt veit enginn hver hann er.

Brad Tavares er með 12-1 bardagaskor í MMA og 6-1 í UFC. Eftir fjóra sigra í röð fékk Tavares loks að mæta Lorenz Larkin sem er á mörkum þess að vera í topp 15 í millivigtinni. Tavares nýtti tækifærið og við fengum meira að segja að sjá smá gólfglímu frá honum, en hingað til hefur hann einblínt meira á að halda bardaganum standandi.

Cole Miller gjörsigrar Sam Sicilia og heimtar bardaga við Donald ‘Clownboy’ Cerrone.

Eftir sigur á Andy Ogle í Manchester í október á síðasta ári, lýsti Cole Miller yfir óánægju sinni með hve litla athygli hann væri að fá í fjaðurvigtardeildinni. Hann var sérstaklega óánægður með að menn eins og Conor McGregor (sem hann kallaði Colin McGoober) væru að stytta sér leið á toppinn með því að nýta sér ‘hype’ og heimta bardaga við stærri nöfn líkt og Diego Sanchez, Cub Swanson og Dustin Poirier.

Á miðvikudaginn barðist Miller svo gegn Sam Sicilia og kláraði bardagann örugglega. Eftirá heimtaði hann svo að Donald Cerrone færði sig niður um þyngdarflokk til að keppa við sig og kallaði hann Cerrone meðal annars ‘Clownboy’ (gælunafn Cerrone er ‘Cowboy). Cole Miller er því ekki bara svartbeltingur í BJJ því hann virðist einnig vera með svart belti í að uppnefna fólk. Honum virðist vera mjög í mun að fá að keppa við þekktari andstæðinga en hingað til hefur honum ekki tekist að ná þeim stöðugleika sem þarf til að komast inní topp 10.

Yoel Romero lendir í klandri gegn Derek Brunson.

Romero hélt uppteknum hætti þegar hann sigraði Derek Brunson með tæknilegu rothöggi og því hafa allir átta MMA bardagar hans endað með rothöggi. Þrátt fyrir það var þessi bardagi langt frá því að vera auðveldur fyrir Ólympíusilfurhafann Romero. Brunson vann fyrstu tvær loturnar og tókst að fella Romero nokkru sinnum áður en Romero kláraði bardagann með tæknilegu rothöggi í þriðju lotu.

Það er athyglisvert að sjá að Romero tekst ekki að stöðva fellur frá mönnum eins og Ronny Markes og Derek Brunson, þrátt fyrir að vera heimsklassa glímumaður. Mögulega er þetta til marks um muninn á ‘hreinni’ glímu og glímu í MMA. Það er líka áhugavert að Romero sé fyrst og fremst að eltast við rothögg í stað þess að nýta glímuhæfileikana. Þetta virðist þó vera að virka hjá honum svo kannski er lítið hægt að segja við því. Romero var gangrýndur á glímuferli sínum fyrir að hugsa of mikið um að líta “töff” út í stað þess að gera hlutina einfalda. Í MMA virðist hann vera að gera það sama með því að reyna að líta vel út og rota andstæðinga sína í stað þess að taka þá niður og yfirbuga þá þannig. Áhorfendur geta samt ekki kvartað þar sem bardagar hans eru oftast mjög skemmtilegir.

Brunson fellir RomeroBrunson fellir Romero

T.J. Dillashaw er stimplar sig inn í topp fimm í bantamvigtinni.

Það er ótrúlegt að hugsa til þess að Dillashaw, sem var frekar einhæfur glímukappi í Ultimate Figher 14 fyrir tveimur árum síðan, berst nú eins og maður sem hefur æft kickbox í 10 ár. Kickbox þjálfari Team Alpha Male, Duane Ludwig, fær að taka heiðurinn af þessum framförum.

Dillashaw var mjög sannfærandi í sigri sínum á Easton og það kæmi mér verulega á óvart ef hann gerir ekki atlögu að titlinum á næstu misserum. Lærifaðir Dillashaw, Urijah Faber, berst um titilinn í bantamvigtinni gegn Renan Barao 1.febrúar og það gæti orðið hausverkur fyrir Dillashaw ef Faber endar sem meistarinn og þeir tveir þurfa að mætast.

Dillashaw nákvæmur á meðan Easton slær vindhöggDillashaw nákvæmur á meðan Easton slær vindhögg

Luke Rockhold pakkar Costas Philippou saman.

Aðalbardagi kvöldsins átti að vera spennandi viðureign en reyndist algjör einstefna. Rockhold sigraði með yfirburðum með tveim hnitmiðuðum spörkum í skrokkinn og virtist sigur hans aldrei vera í hættu. Eftir bardagann fór hann fram á “rematch” við Vitor Belfort, en Belfort rotaði Rockhold með glæsilegu hringsparki í maí síðastliðnum í Brasilíu. Rockhold heimtaði auk þess að næsti bardagi gegn Belfort myndi fara fram í Bandaríkjunum. Mikið hefur verið rætt um TRT notkun Belfort, en það er testósterónmeðferð sem krefst sérstakrar undanþágu. Ekki er víst að Belfort fengi slíka undanþágu í Bandaríkjunum og því eru þessi ummæli Rockhold í raun krafa um að fá að berjast við Belfort án þess að hann sé á frammistöðubætandi lyfjum. Rockhold sagðist vera tilbúinn að fara í gegnum hvern sem er til að fá annað tækifæri gegn Belfort, jafnvel Michael Bisping. Bisping heldur því áfram að vera sá maður sem allir í millivigtinni vilja helst berjast við. Það er í raun “win-win” aðstaða fyrir Rockhold þar sem Bisping er stórt nafn í millivigtinni en hefur verið frá vegna meiðsla. Hvað er betra en að kalla út stórt nafn sem hefur setið lengi á hliðarlínunni og getur auðveldlega selt bardaga eins og Bisping gerir?

Hvað sem öllu þessu líður stimplaði Rockhold sig endanlega inn sem topp 10 keppanda í millivigtinni og verður spennandi að sjá hvað tekur við hjá honum.

 

Bas Rutten væri stoltur af þessu sparkiBas Rutten væri stoltur af þessu sparki

Vert er að fylgjast nánar með:

Louis Smolka. Nýliði í fluguvigtinni. Enn ósigraður og leit vel út í sínum fyrsta UFC bardaga.

T.J. Dillashaw. Mun gera atlögu að titlinum í náinni framtíð.

Luke Rockhold. Enn ein viðbótin í þegar sterka millivigt UFC.

Dustin Ortiz. Stóð sig vel gegn mun sigurstranglegri andstæðing John Moraga. Tapaði eftir klofinn dómaraúrskurð. Flinkur glímukappi og æfir hjá Duke Roufus sem mun gera hann betri standandi.

Náðu ekki að heilla:

Isaac Vallie-Flagg. Þessi 35 ára léttvigtarmaður er í einum sterkasta þyngdarflokki UFC. Ætti að íhuga að hengja upp hanskana .

Charlie Brenneman. Tapaði gegn óþekktum andstæðing og virðist ekki vera nægilega góður til að keppa meðal þeirra bestu. Hann hefur tapað síðstu þrem bardögum sínum í UFC – öllum í fyrstu lotu.

Guttormur Árni Ársælsson
Guttormur Árni Ársælsson
-Pistlahöfundur -Fjólublátt belti í BJJ -Lýsi UFC á Viaplay þegar Pétur hefur eitthvað merkilegra að gera
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -

Most Popular