spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentFöstudagstopplistinn: 10 bestu bardagarnir sem féllu niður vegna kórónaveirunnar

Föstudagstopplistinn: 10 bestu bardagarnir sem féllu niður vegna kórónaveirunnar

Vegna kórónuveirunnar hafa fjöldi bardaga fallið niður. UFC hefur ekki haldið bardagakvöld síðan 14. mars en 6 bardagakvöldum hefur verið festað vegna veirunnar.

UFC 249 hefði átt að fara fram á morgun í Brooklyn í New York. Vegna kórónaveirunnar hefur UFC þurft að fresta bardagakvöldinu sem og síðustu bardagakvöldum. 6 bardagakvöld hafa fallið niður og þar af leiðandi fjölmargir bardagar. Einhverjir bardagar munu sennilega fara fram síðar á árinu og hafa verið færðir á önnur bardagakvöld en sumir virðast endanlega horfnir.

10. Davi Ramos gegn Arman Tsarukyan (UFC FN 172, 11. apríl)

Þessi bardagi hefði átt að eiga sér stað um síðustu helgi. Þetta hefði getað verið frábær glímubardagi tveggja frábærra glímumanna. Óljóst er hvort UFC bóki þá aftur þegar allt fer í fyrra horf.

9. Bryce Mithcell gegn Charles Rosa (UFC FN 174, 2. maí)

Þessi bardagi átti að fara fram í Oklahoma og var ávísun á frábæra skemmtun. Rosa hefur lítið barist á þeim sex árum sem hann hefur verið í UFC en fjórum sinnum fengið frammistöðubónus í sex bardögum. Hann er aldrei að fara að komast alla leið í fjaðurvigtinni en er alltaf skemmtilegur og það er Bryce Mitchell líka. Vonandi mun UFC setja þennan bardaga aftur á dagskrá.

8. Alistair Overeem gegn Walt Harris (UFC FN 172, 11. apríl)

Þessi bardagi átti að vera aðalbardaginn um síðustu helgi í Portland. Bardaginn hefur verið settur aftur á dagskrá þann 16. maí þó enn sé óljóst hvort eða hvar bardagakvöldið fari fram. Þetta verður líka fyrsti bardagi Harris eftir að hann missti dóttur sína í fyrra.

7. Jack Hermansson gegn Chris Weidman (UFC FN 174, 2. maí)

Þeir Hermansson og Weidman áttu að vera í aðalbardaganum þann 2. maí í Oklahoma. Weidman hefur verið á skelfilegu skriði síðustu ár en er ennþá stórt nafn og hefði þetta getað verið gott tækifæri fyrir Jack Hermansson.

6. Derek Brunson gegn Edmen Shahbazyan (UFC FN 174, 11. apríl)

Maður finnur mest til með þessum enda áttu þeir upphaflega að mætast á UFC 248 í mars. UFC ákvað hins vegar að færa bardagann á minna bardagakvöld í apríl sem féll auðvitað niður. Shahbazyan er einn sá allra efnilegasti í UFC þessa dagana og hefði Brunson verið gott próf fyrir hann. Brunson hefur auk þess gengið í gegnum smá endurnýjun lífdaga eftir að hann byrjaði að æfa hjá Henri Hooft í stað þess að vera einungis að æfa í sínum eigin klúbbi. Þessi hefði verið flottur!

5. Henry Cejudo gegn Jose Aldo (UFC 250, 9. maí)

Það var mikið kvartað þegar UFC ákvað að bóka Cejudo í titilvörn gegn Jose Aldo og það réttilega. Aldo kemst ekki frá Brasilíu vegna veirunnar og því kemur Dominick Cruz inn í stað hans þann 9. maí sem er ekkert mikið betra. Það er ekki mikil eftirsjá eftir þessum bardaga þar sem aðrir en Aldo áttu skilið að fá titilbardaga en þetta hefði engu að síður orðið fínasti bardagi.

4. Francis Ngannou gegn Jairzinho Rozenstruik (UFC on ESPN 8, 28. mars)

Þessi hefur fallið tvisvar niður en upphaflega áttu þeir að mætast í aðalbardaganum þann 28. mars. UFC færði þá á UFC 249 en þegar það bardagakvöld var fellt niður hefur bardaginn verið settur á dagskrá þann 9. maí. Mun þessi bardagi fá að fara fram í maí?

3. Rose Namajunas gegn Jessica Andrade (UFC 249, 18. apríl)

Fyrsti bardagi Namajunas síðan hún tapaði beltinu til Andrade og fyrsti bardagi Andrade síðan hún tapaði beltinu til Zhang. Mjög mikilvægur bardagi í strávigt kvenna og gæti skorið úr um hver fær næsta titilbardaga. Sennilega verður þessi bardagi ekki á dagskrá í bráð þar sem tveir fjölskyldumeðlimir Namajunas féllu frá á dögunum eftir baráttu við Covid-19 sjúkdóminn.

2. Leon Edwards gegn Tyron Woodley (UFC FN 171, 21. mars)

Mjög mikilvægur bardagi í veltivigtinni og þá sérstaklega fyrir Leon Edwards. Hann átti að vera í aðalbardaga kvöldsins í London gegn fyrrum meistara. Draumastaða fyrir Edwards en sigur hefði sennilega tryggt honum titilbardaga. Bardaginn féll niður og nú er Woodley í stöðugum orðaskiptum við Colby Covington. UFC gæti því bókað Woodley gegn Covington næst sem væri afar óheppilegt fyrir Edwards.

1. Khabib Nurmagomedov gegn Tony Ferguson (UFC 249, 18. apríl)

Þetta er stærsti bardagi ársins hjá UFC og einn sá mikilvægasti í sögu léttvigtarinnar. Fimm sinnum hefur UFC reynt að setja bardagann saman en aldrei hefur þeim tekist að fara í búrið. Núna þegar Ramadan hefst innan skamms mun Khabib ekki berjast fyrr en í haust en Tony Ferguson mætir Justin Gaethje líklegast þann 9. maí. Þessi bardagi hefur því enn einu sinni fallið úr greipum MMA aðdáenda en í þetta sinn var það vegna kórónaveirunnar.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular