Eins og flestum bardagaáhugamönnum er kunnugt um samdi UFC við fyrrum fjölbragðaglímukappann CM Punk þrátt fyrir að hann hafi enga reynslu í MMA. Af því tilefni ætlum við að nefna fimm bardagamenn sem komu í UFC með bardagaskorið 0-0.
Á listanum miðum við við Zuffa tímabilið (þ.e. frá 2001). Á fyrstu árum UFC voru eðlilega margir bardagakappar að stíga sín fyrstu skref í MMA þegar þeir tóku sína fyrsta bardaga og því ætlum við að sleppa því tímabili. Nú er landslagið annað og því komast menn á borð við Randy Couture, Chuck Liddell og Tito Ortiz ekki á listann þrátt fyrir að hafa barist sína fyrstu bardaga í UFC.
5. James Toney (0-1) UFC 118
MMA ferill James Toney entist aðeins í rúmar þrjár mínútur. Þessi fyrrum heimsmeistari í boxi mætti Randy Couture á UFC 118 árið 2010 í þungavigt og eftir fellu frá Couture á fyrstu sekúndum bardagans átti Toney ekki séns. Þetta var eini MMA bardaginn hjá þessum 46 ára gamla boxara og hefur lítið spurst til hans eftir bardagann.
4. Matt Riddle (8-3) The Ultimate Fighter 7 Finale
Matt Riddle komst í UFC í gegnum The Ultimate Fighter (TUF) raunveruleikaseríuna. Áður en upptökur fóru fram hafði hann aldrei barist atvinnumannabardaga og því var fyrsti bardaginn hans á The Ultimate Fighter 7 úrslitakvöldinu. Bardagarnir í húsinu í TUF fara ekki á bardagaskorin þar sem bardagarnir eru sagðir sýningarbardagar en ekki alvöru bardagar. Riddle komst ekki langt í þáttunum en fékk engu að síður bardaga á úrslitakvöldinu og síðar samning við UFC. Riddle barðist 12 bardaga í UFC áður en hann féll í tvígang á lyfjaprófi vegna marijúana reykinga og var látinn fara.
3. Amir Sadollah (6-5) – The Ultimate Fighter 7 Finale
Matt Riddle var ekki eini nýliðinn í 7. seríu TUF þar sem Amir Sadollah kom inn í húsið með bardagaskorið 0-0. Sadollah gekk mun betur en Riddle og endaði sem sigurvegari seríunnar þegar hann sigraði sinn fyrsta atvinnumannabardaga á The Ultimate Fighter 7 Finale kvöldinu. Sadollah hafði áður sigrað alla áhugamannabardaga sína (4-0) en í dag er hann með bardagaskorið 6-5, allt bardagar í UFC. Sadollah þykir ekki merkilegur bardagamaður í dag og hefur mikið verið frá vegna meiðsla.
2. Matt Mitrione (8-3) – The Ultimate Fighter: Heavyweights Finale
Matt Mitrione kom inn í TUF húsið með enga atvinnumannabardaga að baki. Hann var meðlimur í 10. seríu TUF og datt út í 8-manna úrslitum í þáttunum. Eftir að seríunni lauk barðist hann sinn fyrsta bardaga á úrslitakvöldinu gegn Marcus Jones og rotaði hann snemma í 2. lotu, Mitrione hefur átt ágætis gengi að fagna í þungavigtinni síðan þá og sigraði til að mynda sína fyrstu fimm bardaga í UFC. Hann er í 14. sæti á styrkleikalista UFC í þungavigtinni og mætir Gabriel Gonzaga annað kvöld á UFC on Fox bardagakvöldinu.
1. BJ Penn (16-10-2) – UFC 31
BJ Penn er ein mesta goðsögnin í sögu MMA enda fyrrum léttvigtarmeistari og veltivigtarmeistari í UFC. Hans fyrsti MMA bardagi fór fram á UFC 31 þann 3. maí árið 2001. Afrek hans í BJJ (þar sem hann varð heimsmeistari svartbeltinga) fönguðu athygli UFC en samtökin sannfærðu hann um að skipta yfir í MMA. Það var ákvörðun sem BJ Penn sá ekki eftir en Penn er einn vinsælasti bardagamaður í sögu UFC. Penn barðist um léttvigtartitil UFC í aðeins hans fjórða bardaga á ferlinum.
James Toney var útbrunnið skar þegar hann reindi fyrir sér blönduðum MMA svo því sé haldið til haga og 12 árum frá þvi að vera í bardaga formi:-)