Thursday, October 3, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentFöstudagstopplistinn: 5 bestu trílogíur UFC

Föstudagstopplistinn: 5 bestu trílogíur UFC

Nú um helgina fer þriðji bardaginn fram í frábærri trílogíu Stipe Miocic og Daniel Cormier. Því er tilvalið að skoða bestu trílogíurnar í UFC.

Bestu trílogíurnar innihalda þrjá flotta bardaga, geggjuð tilþrif, drama, spennu og auðvitað sigra á báða bóga.

5. Junior dos Santos gegn Cain Velasquez (2011-2013)

Þetta er ein besta trílogía í sögu þungavigtar UFC. Báðir voru þeir að koma upp á sama tíma sem tveir ótrúlega spennandi og ferskir þungavigtarmenn í UFC. Fyrsti bardaginn (nóvember 2011) var sýndur í beinni á Fox og var það fyrsti bardaginn sem sýndur var á stöðinni þegar Fox var samstarfsaðili UFC. Þá var Cain Velasquez ósigraður og hafði nýlega tekið þungavigtartitilinn af Brock Lesnar.

Fyrsti bardaginn endaði fremur snögglega en Junior dos Santos rotaði Cain eftir aðeins 64 sekúndur fyrir framan 8,8 milljón sjónvarpsáhorfendur í Bandaríkjunum. Eftir eina titilvörn dos Santos mættust þeir aftur í desember 2012. Þetta var ekta „striker vs. grappler“ bardagi þar sem allir vissu hvað báðir vildu gera. Dos Santos með sínar eitruðu hendur vildi rota Cain standandi eins og í fyrri bardaganum en Cain vildi ná fellunni. Orðrómar um meiðsli Cain fyrir fyrsta bardagann gáfu aðdáendum hans von um að hann myndi sýna betri frammistöðu nú þegar hann var heill.

Í þetta sinn gerði Cain engin mistök og pakkaði dos Santos saman. Þeir mættust síðan aftur í október 2013 og þá var sigurinn enn meira sannfærandi þar sem Cain kláraði dos Santos með tæknilegu rothögg í 5. lotu. Cain einfaldlega lamdi dos Santos eins og harðfisk í 10 lotur og var dos Santos ekki sami bardagamaður eftir bardagana við Cain.

4. Chuck Liddell gegn Randy Couture (2003-2006)

Fyrstu tveir bardagar beggja enduðu með fremur óvæntum hætti. Fyrst náði Randy Couture mjög óvænt að klára Liddell með tæknilegu rothöggi. Fyrir annan bardagann var meistarinn Couture sigurstranglegri hjá veðbönkum en Liddell rotaði Couture strax í 1. lotu. Þeir kláruðu svo trílogíuna tæpu ári síðar þar sem við áttum loksins að fá svarið; hvor er betri?

Liddell kláraði Couture aftur með rothöggi en í þetta sinn var það í 2. lotu. Liddell varði léttþungavigtarbeltið og hélt því þar til hann tapaði fyrir Quinton ‘Rampage’ Jackson.

https://www.youtube.com/watch?v=w6gCjd3biJs

3. Matt Hughes gegn BJ Penn (2004-2010)

Bardagar þeirra voru mjög skemmtilegir og spönnuðu langt skeið. Sá fyrsti var um veltivigtartitilinn og þar tókst Penn óvænt að hengja Hughes í 1. lotu. Fram að því hafði Hughes unnið 13 bardaga í röð og verið hreinlega óstöðvandi. Penn hélt aldrei beltinu þar sem hann átti í samningadeilum við UFC en snéri aftur til UFC tveimur árum síðar. Penn mætti aftur Matt Hughes um veltivigtartitilinn en í þetta sinn tókst Hughes að ná sigri. Penn byrjaði vel en fjaraði út og kláraði Hughes Penn með tæknilegu rothöggi í 3. lotu.

Fyrir fyrstu tvo bardagana var nokkuð um skítkast þeirra á milli og enginn sérstakur vinskapur. Það var hins vegar allt annað andrúmsloft fyrir þriðja bardagann þar sem báðir höfðu góða hluti að segja um hvorn annan og ekkert nema virðing og vinsemd þeirra á milli.

Penn kláraði trílogíuna með rothöggi eftir aðeins 21 sekúndu í nóvember 2010. Það er síðasti sigur Penn á ferlinum en hann hefur farið í gegnum átta bardaga (eitt jafntefli og sjö töp) án sigurs. Þetta reyndist vera næstsíðasti bardagi ferilsins hjá Hughes áður en hann lagði hanskana á hilluna 38 ára gamall.

2. Frankie Edgar gegn Gray Maynard (2008-2011)

Fyrsti bardagi þeirra var ekkert magnaður. Þrjár lotur þar sem Gray Maynard stjórnaði með fellum. Það sem kom á eftir því voru tveir dramatískir bardagar!

Frankie Edgar var léttvigtarmeistari og mætti Gray Maynard þann 1. janúar 2011. Maynard byrjaði hrikalega vel og kýldi meistarann snemma niður. Maynard einfaldlega rústaði Edgar í þeirri lotu og var í raun ótrúlegt að Edgar skildi hafa þraukað alla lotuna. Maynard vann lotuna 10-8 og virtist bara vera tímaspursmál hvenær hann myndi klára Edgar. Edgar var þó langt í frá búinn og kom sterkur til baka. Edgar náði að vinna nógu margar lotur og endaði bardaginn á jafntefli.

Þriðji og síðasti bardaginn var síðan enn dramatískari. Aftur byrjaði Maynard á að kýla Edgar niður og var erfitt að trúa því að Edgar myndi enn einu sinni lifi af. Edgar náði enn og aftur magnaðri endurkomu sem fullkomnaðist þegar hann kláraði Maynard með tæknilegu rothöggi í 4. lotu. Magnaður endir á ótrúlegri trílogíu.

  1. Georges St. Pierre gegn Matt Hughes (2004-2007)

Þessi trílogía er eiginlega þrosasaga Georges St. Pierre í UFC. Þegar þeir mættust fyrst var GSP 23 ára gamall, ósigraður og var að berjast í sínum fyrsta titilbardaga í UFC. Hann hafði litið upp til Matt Hughes um árabil og þorði ekki að horfa í augun á honum þegar þeir mættust augliti til auglits. Hughes kláraði GSP með armlás þegar ein sekúnda var eftir af fyrstu lotunni. GSP stóð sig vel en hann átti margt ólært.

GSP vann sig upp í annan titilbardaga gegn Matt Hughes og lét þessi frægu orð falla í aðdraganda bardagans:

Annar bardagi þeirra fór fram í nóvember 2006 og var GSP þarna að fá sinn annan titilbardaga í UFC. Hughes var ríkjandi meistari en í þetta sinn var GSP tilbúinn. Frammistaða hans var frábær og kláraði hann Hughes með hásparki í 2. lotu.

GSP tapaði titlinum óvænt til Matt Serra en þegar Serra var frá vegna meiðsla mættust þeir GSP og Hughes í þriðja sinn og þá um bráðabirgðartitilinn í veltivigtinni. GSP hafði breyst gífurlega sem bardagamaður frá fyrsta bardaganum við Hughes. GSP var einfaldlega mun betri bardagamaður og allt annar bardagamaður en sá sem tapaði fyrir Matt Hughes þremur árum fyrr. GSP tók Hughes niður, varðist öllum fellum Hughes og endaði á að klára Hughes með armlás rétt eins og hann hafði tapað fyrir Hughes þremur árum fyrr. Þar með náði hann hinni fullkomnu hefnd fyrir fyrsta tapið. GSP var aftur orðinn veltivigtarmeistari og lét ekki beltið frá sér fyrr en hann hætti 6 árum síðar.

Hægt er að sjá brot úr mörgum af þessum bardögum hér að neðan:

spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

- Advertisment -spot_img

Most Popular