Föstudagstopplistinn er í hressari kantinum en í dag förum við yfir 10 óvenjulegustu atvikin í MMA. Allt eru þetta atvik sem áttu sér stað í bardaga eða í aðdraganda bardaga en hér koma þau 10 óvenjulegustu að okkar mati.
10. Murilo Bustamante sigrar Matt Lindland tvisvar eftir uppgjafartak í sama bardaga
Á UFC 37 mættust þeir Murilo Bustamante og Matt Lindland um millivigtartitil UFC. Í fyrstu lotu virtist Bustamante hafa sigrað eftir “armbar” þar sem það leit út fyrir að Lindland hefði tappað út. Dómarinn, John McCarthy, stöðvaði bardagann en Lindland þvertók fyrir það að hafa tappað út. Því lét dómarinn þá halda áfram en Bustamante lét það ekki hafa mikil áhrif á sig og hengdi Bustamante í 3. lotu. Þar lék enginn vafi á að Lindland tappaði út og Bustamante sigraði Lindland (aftur).
9. Rousimar Palhares hleypur upp á búrið í miðjum bardaga
Það væri hægt að skrifa heilan föstudagstopplista um óvenjulega hegðun Palhares en eitt atvik stendur upp úr. Í bardaga hans við Dan Miller hrasaði Miller og lét Palhares höggin dynja á honum í jörðinni. Skyndilega hætti Palhares árás sinni og öllum að óvörum hljóp hann upp á búrið og fagnaði. Dómarinn Herb Dean hafði ekki stöðvað bardagann og var augnablikið þegar hann var að segja Palhares (sem skilur ekki mikla ensku) að koma niður ansi vandræðalegt. Palhares til varnar sagðist hann hafa heyrt Miller hrópa “stop, stop” og því hætt og fagnað sigri.
8. Gray Maynard rotar sjálfan sig
Gray Maynard var að gjörsigra Rob Emerson þegar þeir mættust á The Ultimate Fighter 5 Finale. Í 2. lotu reyndi Maynard mjög öfluga fellu. Fellan var svo öflug að Maynard rotaði sjálfan sig en braut líka rifbein Emerson. Maynard lyfti Emerson hátt upp frá jörðu og þegar hann skellti honum niður braut hann rifbein á Emerson sem öskraði af sársauka og tappaði út. Emerson áttaði sig ekki á að Maynard hafði skellt enninu í gólfið á leiðinni niður í fellunni og þannig rotað sjálfan sig. Emerson tappaði út og Maynard var rotaður og því var bardaginn dæmdur ógildur. Gray Maynard neitaði því að hafa rotast en það var öllum áhorfendum ljóst að hann var rotaður.
7. Joe Son fær (mörg) högg á viðkvæman stað frá Keith Hackney
Á fyrstu 10 UFC bardagakvöldunum voru reglurnar afar takmarkaður. Til að mynda var leyfilegt að kýla í klof andstæðings síns og það nýtti Keith Hackney sér. Þegar hann var ofan á andstæðing sínum, Joe Son, í kjörstöðu lét hann höggin dynja á honum. Flest fóru þau í klof Joe Son og var ásetningurinn augljós af hálfu Hackney. Eftir nokkur svona högg gat Joe Son ekki lengur tekið við þeim og tappaði út. Sem betur fer er þetta að sjálfsögðu bannað í dag í MMA.
6. Gilbert Yvel rotar dómara
Gilbert Yvel er mikill ólátabelgur og mætti hann Atte Backman í nóvember 2004. Eftir smá basl ætlaði dómarinn að láta bardagann halda áfram úr sömu stöðu í “clinchinu” en Yvel var ósáttur við það. Eftir endurteknar tilraunir dómarans til að láta þá byrja í sömu stöð fékk Yvel nóg og kýldi dómarann með vinstri krók! Hann sparkaði í hann einnig og var dómarinn ansi vankaður. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Yvel sýndi svona fáranlega hegðun í MMA en sem betur fer í það síðasta. Batnandi mönnum er best að lifa.
5. Heath Herring bregst illa við kossi
Á gamlársdag 2005 mættust þeir Heath Herring og Yoshihiro Nakao. Bardaginn fór þó aldrei af stað þar sem Nakao var rotaður áður en bardaginn byrjaði. Skömmu fyrir bardagann mættust þeir Herring og Nakao augliti til auglits í hringnum og smellti Nakao einum kossi á Herring. Bandaríkjamaðurinn tók kossinum eitthvað illa og kýldi Japanann sem lá óvígur eftir á jörðinni. Bardaginn byrjaði aldrei þar sem Nakao rotaðist áður en bardaginn byrjaði en var engu að síður dæmdur ógildur.
4. Kevin Randleman rennur baksviðs og rotast
Á UFC 24 stóð til að Kevin Randleman myndi verja þungavigtartitil sinn gegn Pedro Rizzo. Á þessum tíma áttu eigendur UFC, SEG, erfitt uppdráttar og ekki bætti úr skák þegar hætta þurfti við aðalbardaga UFC 24 á síðustu stundu. Þegar Kevin Randleman var að hita upp baksviðs rann hann og féll á steypt gólfið og steinrotaðist! Augljóslega var ekki hægt að láta bardagann fara fram og því þurftu áhorfendur að sætta sig við að sjá þá óþekktu Tedd Williams og Steve Judson í aðalbardaga kvöldsins.
3. Matt Hughes rotar Carlos Newton eftir að hafa verið svæfður
Matt Hughes og Carlos Newton börðust um veltivigtartitil UFC í nóvember 2001. Carlos Newton læsti “triangle” hengingu á Hughes og var hengingartakið þétt. Hughes lyfti Newton upp af gólfinu og á meðan Hughes heldur Newton hátt uppi sofnar hann vegna hengingartaksins og hrynur niður. Þar sem Hughes hélt Newton hátt uppi skellti hann Newton niður er hann hrundi niður vegna hengingartaksins og rotaði þannig Newton! Þegar Hughes vaknar eftir svæfingartakið áttar hann sig á hvað hafði gerst og var krýndur veltivigtarmeistari.
2. Don Frye og Yoshihiro Takayama gleyma vörninni
Bardagi Don Frye og Yoshihiro Takayama var frábær skemmtun og valinn bardagi ársins 2002. Don Frye er þekktur harðjaxl og lítur út eins og fógeti í villta vestrinu. Strax í byrjun bardagans létu þeir höggin dynja á hvor öðrum án þess að hugsa of mikið um að verja sig. Það er í raun óþarfi að skrifa of mikið um þetta atvik, þið verðið bara að sjá þetta. Hér er smá klippa úr bardaganum þar sem búið er að bæta við hljóðbrellum.
1. Báðir rotast á nákvæmlega sama tíma!
Þetta atvik er heimsþekkt og hlítur að teljast óvenjulegasta atvikið í sögu MMA. Tyler Bryan og Shawn Parker komu öflugir til leiks í bardaga þeirra en eftir nokkrar sekúndur rotuðust báðir keppendur á nákvæmlega sama tíma! Bardaginn var dæmdur ógildur eftir aðeins átta sekúndur þar sem hvorugur keppanda gat haldið áfram. Takið eftir viðbrögðum dómarans Shonie Carter en hann var þekktur bardagamaður á sínum tíma og gríðarlega skemmtilegur karakter.
Er eitthvað atvik sem ykkur finnst vanta á listann?