spot_img
Monday, December 23, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentFramhaldið í óvissu hjá UFC eftir ferðabann og samkomubönn

Framhaldið í óvissu hjá UFC eftir ferðabann og samkomubönn

Næstu viðburðir UFC eru í óvissu eftir að fleiri samkomubönn hafa verið sett á svæðum sem bardagakvöld eiga að fara fram á. Þá mun ferðabannið koma í veg fyrir að bardagamenn komist til Bandaríkjanna.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, setti í nótt ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna í þrjátíu daga frá og með miðnætti á föstudag. Bannið gildir um allar Evrópuþjóðir nema Bretland. NBA deildin tók þá stóru ákvörðun í nótt að fresta öllum leikjum um ótakmarkaðan tíma. UFC hefur ekki tekið neina ákvörðun varðandi næstu viðburði en eru að skoða sín mál.

UFC er með bardagakvöld í höfuðborg Brasilíu á laugardaginn. Tvö smit hafa verið staðfest í borginni á síðustu dögum og tilkynnti ríkisstjórinn Ibaneis Rocha í nótt að öllum viðburðum í borginni verði frestað. Samkvæmt tilkynningunni verður öllum tónleikum og íþróttaviðburðum frestað og þá munu skólar loka til 16. mars. UFC hefur ekki sent frá sér tilkynningu vegna málsins og óvíst hvort bardagakvöldið fari fram eða fari fram fyrir luktum dyrum.

Eins og við greindum frá í gær hefur ríkisstjóri Ohio lagt til að áhorfendum verði ekki hleypt á íþróttaviðburði í ríkinu en UFC er með bardagakvöld þar þann 28. mars.

UFC heimsækir Portland í Oregon 11. apríl en ríkisstjóri Oregon fylkis, Kate Brown, mun halda blaðamannafund á fimmtudagsmorgun til að ræða aðgerðir til að stöðva dreifingu veirunnar.

Ef næstu viðburðir UFC fara fram verða þó einhverjir bardagar felldir niður vegna ferðabanns Trump. Ítalski bardagamaðurinn Alessio Di Chirico æfir í Róm og mun að öllum líkindum ekki komast í sinn bardaga. Þá munu fleiri rússneskir bardagamenn sennilega ekki komast til Bandaríkjanna fyrir bardaga sína. Þess má geta að Khabib Nurmagomedov er kominn til Bandaríkjanna en hann hefur æft hjá AKA síðustu mánuði eins og hann er vanur að gera.

KSW í Póllandi hætti við bardagakvöld sitt þann 21. mars í gær og AFL á Spáni hætti við bardagakvöld sitt á dögunum sem átti að fara fram nú á laugardaginn.

Það verður mikil óvissa um næstu viðburði í MMA heiminum og áhugavert að sjá hvað UFC gerir.

spot_img
spot_img
spot_img
Pétur Marinó Jónsson
Pétur Marinó Jónssonhttps://www.mmafrettir.is
Eigandi og ritstjóri vefsins www.mmafrettir.is -Æft bardagaíþróttir í einhver ár (fjólublátt belti í BJJ) -BS í sálfræði -Lýsi UFC á Viaplay
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular