spot_img
Monday, November 17, 2025
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeInnlentFyrsta MMA kvöld Íslandssögunnar verður að veruleika

Fyrsta MMA kvöld Íslandssögunnar verður að veruleika

Bjarki Þór Pálsson, fyrrum atvinnumaður í MMA og eigandi Reykjavík MMA, mun standa fyrir fyrsta MMA bardagakvöldi Íslands þegar Glacier Fight Night verður sett á laggirnar þann 15. nóvember næstkomandi. Þetta er fyrsta MMA kvöld sinnar tegundar en Bjarki hefur unnið hörðum höndum að því að fá leyfi fyrir kvöldinu og hafa nú öll leyfi skilað sér í hús og öll ljós græn.

Kvöldið verður haldið í Andrews Theater á Ásbrú, Reykjanesbæ, og er áætlað að staðurinn muni taka rúmlega 450 manns í sæti auk VIP borða. Miðasalan fer fram á Tix.is og því engin ástæða til þess að sitja á höndum sér og grípa miða strax. Að öðrum kosti verður hægt að fylgjast með sjónvarpsútsendingunni en að svo stöddu er ekki búið að staðfesta hvaða sýningaraðili mun tryggja sér réttinn að útsendingunni.

Íslendingar mæta erlendum andstæðingum á heimavelli

Enn er unnið að því að setja saman bardaga. En fyrstu fréttir segja að búið sé að setja saman sjö bardaga þar sem keppnislið Reykjavík MMA mætir andstæðingum frá Bretlandi, Skotlandi og Noregi.

Mikill áhugi er fyrir kvöldinu og segir Bjarki Þór að fleiri viðureignir muni bætast við kvöldið og fleiri klúbbar hafi áhuga á að taka þátt. Glacier Fight Night er ekki klúbbamót heldur MMA skemmtun fyrir alla og því líklegt að Mjölnir muni eiga sína fulltrúa á kvöldinu. Mjölnir er með virkilega efnilegt keppnislið og unga keppendur sem gætu nýtt tækifærið til þess að sækja sér reynslu og berjast á heimavelli, tækifæri sem hefur ekki staðið íslenskum keppendum til boða fyrr en nú.

Öll leyfi í hús – „Ég finn það bara að tíminn er núna“

Mikið hefur verið rætt varðandi lögmæti MMA á Íslandi, hvort að sportið sé bannað og hvort að MMA teljist sem íþrótt. Það er í sjálfu sér umræða fyrir sinn eigin pistil en í dag eru öll leyfi sem til þarf til að halda MMA viðburð til staðar. Reykjanesbær, sýslumaður, lögreglan og Brunaeftirlitið hafa öll gefið grænt ljós á viðburðinn og því engin ástæða til að tyggja bragðlausan kjötbita lengur og einfaldlega ríða á vaðið og halda sögulegan viðburð!

Hingað til hafa Íslendingar þurft að ferðast erlendis til þess að keppa en í ljósi þess að MMA er ört vaxandi sport hentar það einfaldlega ekki lengur. Bjarki Þór segir í samtali við MMA Fréttir:

„Þegar Caged Steel datt niður í september þá fór ég að hugsa að þetta gengi ekki lengur. Við verðum að fá að berjast og þetta er að ganga alltof hægt að vera með fimm eða sex bardaga og þurfa að ferðast til Englands í hvert einasta skipti til þess að koma mönnum í gegnum áhugamennskuna. Við erum með það stórt keppnislið núna að við þurfum að fá fleiri fighta og við þurfum að fá að berjast hérna heima. Það er það sama sem gildir um Mjölni, Halli er alveg sammála því að við viljum fá að berjast hérna heima og það er bara kominn tími á að við fáum að stunda okkar íþrótt”

– Bjarki Þór Pálsson

MMA er ört vaxandi íþrótt á Íslandi. Því fylgir vöntun á tækifærum fyrir iðkendur til að keppa og mun Glacier Fight Night vera liður í því að brúa bilið milli iðkunar og keppni. Reykjavík MMA hefur reglulega gert sér ferð til Bretlands til að keppa á Caged Steel í Doncaster og til að fara með keppendur á Interclub byrjendamót. Reykjavík MMA mun halda áfram þeirri stefnu og mun keppnislið Reykjavík MMA taka þátt á Caged Steel í desember eins og áður.

Reglur og uppsetning í takt við önnur Norðurlönd

Bjarki Þór mun sjá um að flytja til landsins erlenda dómara til að annast kvöldið. Dómararnir koma frá Bretlandi og fáum við þrjá stigadómara og einn hringdómara með reynslu til þess að tryggja að allar viðureignir fari fram í samræmi við reglur og umgjörð sem tíðkast annars staðar í Evrópu.

Keppt verður eftir skandinavískum reglum, sem eru í raun IMMAF reglurnar um áhugamennsku. Olnbogar og hnéspörk í höfuð verða ekki leyfileg og munu keppendur nota sérstakar legghlífar til að verja sköflunginn eins og tíðkast á Evrópumóti IMMAF.

spot_img
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Mest Lesið