spot_img
Sunday, December 22, 2024
Minigarðurinnspot_imgspot_imgspot_img
HomeErlentGeorges St. Pierre gagnrýnir samninginn við Reebok

Georges St. Pierre gagnrýnir samninginn við Reebok

SPO-UFC-158Georges St. Pierre, fyrrum veltivigtarmeistari UFC, segir samning UFC við Reebok slæman fyrir bardagamenn sem standa illa fjárhagslega. Hann ræddi nýlega breytingarnar sem hafa verið gerðar hjá UFC síðan hann hætti keppni.

Georges St. Pierre virðist hamingjusamur maður í dag. Hann brosir meira en hann gerði áður fyrr enda var ánægjan sem fylgdi bardagaferlinum löngu farin áður en hann lagði hanskana á hilluna í desember 2013. Pressan sem fylgdi því að vera besti veltivigtarmaður heims er farin og er kappinn nú að njóta lífsins meira en áður. Bardagaaðdáendur spyrja sig enn að því hvort St. Pierre muni nokkurn tímann snúa aftur og eru þar nokkrar hindranir á veginum.

St. Pierre ræddi við Bleacherreport.com og sagði meðal annars að það væri mikið verk fyrir höndum fyrir umboðsmenn hans og UFC vegna Reebok samningsins ef hann myndi ákveða að snúa aftur til keppni.

Samningur UFC við Reebok hefur ekki haft áhrif á St. Pierre sem er enn með samning við Under Armour, Hayabusa og fleiri samstarfsaðila vegna stöðu sinnar sem einn besti bardagamaður sögunnar. Hann er þó ekki ánægður.

„Þetta er mjög erfitt líf. Þessir menn þéna ekki mikið og þeir þurfa að þegja. Ef þú opnar munninn og segir það sem þér finnst…þú sérð það sem gerðist í Reebok málinu. Ef þú talar illa um ákveðna hluti, er þér sparkað út,“ sagði St. Pierre.

„Sumir af þeim þurfa bara tekjurnar. Ég skil það. Ég er ekkert öðruvísi en þeir. En nú er ég í stöðu þar sem ég get sagt það sem ég vil. Ég er ekki að sýna vanvirðingu en ég er að tala fyrir hönd margra sem treysta mér.“

„Það eru margir í sömu aðstöðu,“ hélt hann áfram. „Þeir hugsa sömu hluti og ég en þeir hafa ekki sama vald og ég. Ég þarf ekki að berjast lengur. Ef ég vil ekki berjast er ég samt ríkur og hamingjusamur. Ég þarf þetta ekki lengur. Það gæti verið að ég vilji þetta, en ég þarf ekki að berjast.“

St. Pierre fór fínt í gagnrýnina en var án efa að vísa til Jacob ‘Stitch’ Duran. Stitch var nýlega látinn fjúka eftir að hafa látið í ljós óánægju sína með launalækkunina sem samningur UFC við Reebok olli honum. Hann var einn vinsælasti starfsmaður UFC meðal bardagamanna.

Fleiri hafa tjáð sig opinberlega og gagnrýnt samninginn á sömu forsendum. Það er því ekki ósennilegt að enn fleiri bardagamenn séu óánægðir en þori ekki að tjá sig um launalækkunina af ótta við að missa vinnuna. St. Pierre segist vilja tala fyrir þeirra hönd.

Talið barst að nýja lyfjaeftirlitinu og reglukerfinu varðandi þá sem falla á lyfjaprófi í UFC. St. Pierre hefur fylgst vel með breytingunum. Góð loforð hafi verið gefin en hann vill bíða og sjá hvernig breytingunum verður hrint í framkvæmd. Ein af aðalástæðunum sem St. Pierre gaf fyrir því að hætta keppni var sú að hann taldi mikið um ólöglega lyfjanotkun í UFC.

Það verður því áhugavert að sjá hvort St. Pierre snúi aftur en líkurnar fara hverfandi með hverjum mánuðinum. Það er þó gaman að sjá gamla meistarann brosandi og njóta lífsins enda hefur hann svo sannarlega unnið fyrir því.

spot_img
spot_img
spot_img
Oddur Freyr Þorsteinsson
Oddur Freyr Þorsteinsson
Greinahöfundur á MMAFréttir.is
RELATED ARTICLES

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

spot_img
spot_img

Most Popular